Lögreglan í Houston hefur fundið lík sex fjölskyldumeðlima sem létust þegar flóð hrifsaði bíl þeirra með sér fram af brú. Eru þau meðal þeirra rúmlega tuttugu sem hafa látist af völdum fellibylsins Harvey.
Bílstjóri bílsins, Samuel Saldivar, komst út í gegnum glugga en tókst ekki að bjarga hinum sex farþegunum. Voru það foreldrar hans; hin 81 árs Belia Saldivar og hinn 84 ára gamli Manuel, auk barnabarnabarna þeirra; hinnar 16 ára Devy, hins 14 ára Dominic, hins 8 ára gamla Xavier og hinnar 6 ára gömlu Daisy.
Saldivar náði að halda sér í tré eftir að hafa komist út um gluggann og var bjargað af björgunarfólki á svæðinu.
Aðrir fjölskyldumeðlimir Saldivar hafa sagt frá því í fjölmiðlum að hann hafi ætlað að keyra með fjölskyldu sína í öryggt skjól þegar flóðið hrifsaði bílinn með sér.
„Fjölskyldan er niðurbrotin, og við erum það líka. Okkar versta martröð er orðin að veruleika,“ er haft eftir lögregluvarðstjóranum Ed Gonzales á vef Sky-fréttastofunnar.
<div><span>Greint hefur verið frá því að yfir 20 manns hafi látist og þá eru stórir hlutar Houston undir vatni. Harvey kom á land </span><span>í Louisiana-ríki í dag. Hann vekur upp erfiðar minningar hjá íbúum ríkisins <span>um þá gríðarlegu eyðileggingu sem fellibylurinn Katrina hafði í för með sér fyrir tólf árum.</span></span></div>