Efnaverksmiðja við það að springa

Flutningabílar á leið til verkmsiðju Arkema Inc.
Flutningabílar á leið til verkmsiðju Arkema Inc. AFP

Efnaverksmiðja skammt fyrir utan Houston mun væntanlega springa í loft upp eða það kviknar í henni á næstu dögum, segir í tilkynningu frá stjórnendum hennar. 

Verksmiðja Arkema-samsteypunnar í Crosby lenti í vandræðum með kælibúnað verksmiðjunnar í úrhellinu sem fylgdi fellibylnum Harvey en nauðsynlegt er að halda efnablöndunum kældum í verksmiðjunni. Vegna þessa er algjörlega útilokað að koma í veg fyrir að það kvikni í verksmiðjunni. 

Arkema er eitt margra fyrirtækja sem hafa lent í alvarlegum vanda vegna fellibylsins og hafa meðal annars olíufyrirtæki þurft að skrúfa fyrir olíuleiðslur.

Veðurstofa Bandaríkjanna hefur lækkað viðbúnað vegna Harvey en hann er nú flokkaður sem hitabeltislægð. Harvey lætur það hins vegar ekki stöðva sig og er spáð mikilli úrkomu áfram í Austur-Texas og Vestur-Louisiana.

Að minnsta kosti 33 eru látnir í hamförunum í Texas og er talið útilokað annað en að sú tala eigi eftir að hækka enn frekar. Aftur á móti er vitað að margir þeirra sem er saknað hafa ekki getað látið vita af sér einfaldlega vegna þess að þeir hafa hvorki aðgang að síma né rafmagni. 

Yfir 30 þúsund manns hafast við í neyðarskýlum í Texas – margir þeirra í Houston þar sem lýst var yfir útgöngubanni að næturlagi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert