Falla frá máli gegn SS-sjúkraliða

Hubert Zafke.
Hubert Zafke. AFP

Ákæruvaldið í Þýskalandi hefur ákveðið að falla frá máli gegn 96 ára fyrrverandi sjúkraliða sem starfaði í Auschwitz í seinni heimsstyrjöldinni. Hubert Zafke hefur átt við veikindi að stríða síðustu ár og er svo komið að hann þykir ekki hafa andlega heilsu til að mæta fyrir dóm.

Zafke starfaði með SS-sveitunum og var ákærður fyrir aðild að 3.681 morði í útrýmingarbúðunum. Réttarhöldunum yfir honum hefur ítrekað verið frestað vegna heilsuleysis en að sögn talsmanns ákæruvaldsins komust læknar að því eftir læknisskoðanir í mars og júlí sl. að Zafke væri ekki í ástandi til að mæta fyrir dóm.

Hann var greindur með vitglöp í október 2015 en þau hafa nú náð því stigi að hann þykir ekki vera hæfur til að gæta eigin hagsmuna né bera vitni.

Glæpirnir sem um ræðir voru framdir á mánaðarlöngu tímabili árið 1944, þegar 14 lestir með fanga Þriðja ríkisins innanborðs komu til Auschwitz-Birkenau. Meðal farþega var Anna Frank, sem var síðar flutt til Bergen-Belsen þar sem hún lést í mars 1945.

Zafke var sagður hafa tilheyrt sveit sem hafði m.a. þann starfa að dæla gasi inn í hina alræmdu aftökuklefa.

Réttarhöldin yfir Zafke hefðu verið þau fjórðu í röð réttarhalda yfir fyrrverandi starfsmönnum útrýmingarbúðanna en John Demjanjuk, Oskar Groening og Reinhold Hanning voru allir fundnir sekir um aðild að fjöldamorði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka