Reykurinn „ótrúlega hættulegur“

Lögreglan lokar veginum að verksmiðjunni.
Lögreglan lokar veginum að verksmiðjunni. AFP

Brock Long, yfirmaður almannavarnastofnunar Bandaríkjanna, FEMA, segir að reykurinn úr efnaverksmiðjunni í Houston þar sem sprengingar urðu í morgun sé „ótrúlega hættulegur“.

Lögreglumaður var fluttur á sjúkrahús vegna reyksins og níu aðrir fóru þangað til að láta huga að sér, að því er BBC greindi frá.

Long sagði á blaðamannafundi í Washington að ekki væri ljóst hvort starfslið hans geti farið inn í verksmiðjuna til að meta ástandið.

Í morgun var ákveðið að rýma svæði innan þriggja kílómetra radíuss frá verksmiðjunni. 

Brock Long, í miðjunni, ræðir við blaðamenn.
Brock Long, í miðjunni, ræðir við blaðamenn. AFP

Búast við meiri eldi 

Eigendur efnaverksmiðjunnar búast við því að meiri eldur eigi eftir að koma þar upp.

Richard Rennard, yfirmaður hjá Arkema, hefur hvatt fólk sem hefur andað að sér reyknum sem kom úr verksmiðjunni í morgun að leita sér læknisaðstoðar en reykurinn er eitraður og fer illa í augu og lungu.

Hann bætti við: „Þetta er ekki efnaleki. Ég vil að það sé alveg ljóst. Þetta er eldsvoði.“

Eldurinn kom upp í geymi vegna vandræða með kælibúnað verksmiðjunnar eftir úrhellið sem fylgdi fellibylnum Harvey. Nauðsynlegt er að halda efnablöndum kældum í verksmiðjunni. Því er útilokað að koma í veg fyrir að það kvikni í verksmiðjunni.

Átta aðrir slíkir geymar eru í verksmiðjunni og er óttast að eldur komi einnig upp í þeim.

Flutningabíll ekur í átt að verksmiðjunni í gær.
Flutningabíll ekur í átt að verksmiðjunni í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert