Stór svæði enn undir vatni

Telephone Rd. í Houston,Texas.
Telephone Rd. í Houston,Texas. AFP

Hitabeltisstormurinn Harvey kom að landi í Louisiana í gær eftir að hafa valdið metrigningum og hamfaraflóðum í grannríkinu Texas.

Fimm dögum áður hafði óveðrið, þá skilgreint sem fellibylur, komið að strönd suðausturhluta Texas. Harvey hélt síðan aftur í Mexíkóflóa og tók þar í sig meiri loftraka áður en hann kom aftur að landi, í þetta sinn í suðvesturhluta Louisiana. Storminum fylgdi aftakarigning og var meðal annars sögð hætta á flóðum í borginni New Orleans sem er berskjölduð vegna þess að stór hluti borgarinnar er undir sjávarmáli og komið hafa upp vandamál í dælukerfi sem sett var upp til að verjast flóðum.

Houston í dag.
Houston í dag. AFP

Ekkert lát var á úrhelli og flóðum í Houston, fjórðu stærstu borg Bandaríkjanna. Að minnsta kosti fjórðungur Harris-sýslu, sem borgin tilheyrir, er undir vatni og tugir þúsunda húsa eru á flóðasvæðunum, að sögn bandarískra embættismanna.

The New York Times hafði eftir embættismönnum í Texas að minnst 30 dauðsföll væru rakin til óveðursins og flóðanna í ríkinu. Á meðal hinna látnu er sextugur lögreglumaður sem drukknaði þegar hann reyndi að mæta til vinnu á sunnudaginn var. Búist er við að tala látinna hækki verulega þegar björgunarmenn komast á svæði sem hafa einangrast í flóðunum.

Útgöngubann vegna gripdeilda

Embættismennirnir sögðu að enn væri of snemmt að segja til um hversu margir létu lífið, hversu mörgum var bjargað, hversu margir væru enn í lífshættu og hversu mörg hús hefðu eyðilagst. Ekki er vitað um afdrif hundruða manna en embættismennirnir leggja áherslu á að hugsanlega hafi einhverjir þeirra ekki aðgang að síma og geti því ekki látið vita af því að þeir séu á lífi.
AFP

Meira en 30.000 manns hafa gist í neyðarskýlum í Texas, meðal annars í stórri ráðstefnumiðstöð í Houston og í kirkjum, að sögn Brocks Long, yfirmanns almannavarnastofnunar Bandaríkjanna, FEMA.

Sylvester Turner, borgarstjóri Houston, setti útgöngubann sem á að gilda í borginni á næturnar í óákveðinn tíma. Aðeins lögreglumenn, bráðaliðar, slökkviliðsmenn, björgunarmenn og fólk sem þarf að vinna á næturnar mega vera á ferli á götunum frá miðnætti til klukkan fimm um morguninn að staðartíma.

AFP

Lögreglan í Houston óskaði eftir útgöngubanninu, meðal annars til að koma í veg fyrir gripdeildir og aðra glæpi eftir að skýrt var frá því að dæmi væru um að fólk notfærði sér flóðin til að láta greipar sópa um mannlaus hús. Lögreglustjóri borgarinnar sagði að útgöngubannið auðveldaði einnig björgunarmönnum að komast um göturnar án hindrana.

Vatn hefur flætt úr tveimur stíflugörðum (Addicks og Barker) sem reistir voru við vesturjaðar Houston til að verjast flóðum. Vatn streymdi þaðan inn á íbúðasvæði sem hafa aldrei áður orðið fyrir flóðum.

Að minnsta kosti ein brú hefur hrunið og stíflugarður sunnan við Houston brast í fyrradag.

Setti úrkomumet

Bandaríska veðurstofan sagði að Harvey hefði valdið meiri úrkomu en nokkur dæmi væru um á meginlandi Bandaríkjanna frá því að mælingar hófust. Úrkoman mældist um 1,3 metrar í Cedar Bayou, austan við Houston. Fyrra úrkomumet á meginlandinu var um 1,22 metrar, en það var í Medina í Texas vegna hitabeltisstormsins Amelíu árið 1978. Bandaríska veðurstofan segir að úrkoma hafi aðeins mælst meiri í Havaí, en það var vegna fellibylsins Hiki árið 1950 þegar úrkoman mældist 1,32 metrar. Þar sem úrhellinu, sem fylgdi Harvey, er ekki lokið er hugsanlegt að hann slái það met einnig.
AFP

 Lögreglustjóri Harris-sýslu sagði að lögreglu- og slökkviliðsmenn í Houston hefðu bjargað um 7.000 manns frá því að óveðrið hófst í vikunni sem leið, mörgum þeirra af þökum húsa og bíla. Auk þeirra hafa sjálfboðaliðar og þjóðvarðliðar bjargað mörgum íbúanna.

Ríkisstjóri Texas hefur kallað út alla þjóðvarðliða ríkisins, alls um 12.000 manns, vegna óveðursins. Að meðtöldum varðliðum frá öðrum ríkjum er talið að alls um 30.000 þjóðvarðliðar taki þátt í björgunarstarfinu, að sögn The New York Times.

AFP

Veðurfræðingar sögðu að veðrið færi batnandi í Texas og spáðu sólskini í Houston á næstu dögum. Talið er þó að nokkrir dagar líði þar til flóðunum lýkur, að sögn bandarískra fjölmiðla.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og eiginkona hans fóru í fyrrakvöld til Corpus Christi þar sem Harvey kom að landi á föstudaginn var. Forsetinn kvaðst vilja að staðið yrði betur að björgunarstarfinu vegna óveðursins en nokkru sinni fyrr í sögu Bandaríkjanna. „Við viljum gera þetta betur en nokkru sinni fyrr,“ sagði hann. „Þegar litið verður til baka, eftir fimm eða tíu ár, viljum við að sagt verði að svona eigi að gera þetta.“

AFP
AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert