Houston verður mörg ár að jafna sig á hitabeltisstorminum Harvey. Þetta segir Greg Abbott, ríkisstjóri í Texas, í samtali við BBC. Vika er síðan stormurinn gekk á land við Mexíkóflóa.
„Þetta verður umfangsmikið hreinsunarstarf,“ sagði Abbott í samtali við fréttamann frá ABC sjónvarpsstöðinni.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, mun að öllum líkindum fara fram á 5,9 milljarða dollara fari til aðstoðar nauðstöddum, eða sem nemur um 620 milljarða króna. Yfirvöld í Texas telja að þörf sé á mun meiri fjármunum, allt að 125 milljörðum dollara, í uppbyggingarstarf.
Þingið kemur saman í næstu viku eftir mánaðarhlé og búist er við að beiðnin verði afgreidd fljótt. Þá hefur Trump tilkynnt að hann muni styrkja hjálparsjóðinn um eina milljón dollara úr eigin vasa.
Styrkir fórnarlömbin um milljón dollaraYfir 40 manns hafa látist af völdum fellibyljarins og afleiðingum hans.
Björgunaraðgerðir standa enn yfir í ríkinu og hafa björgunarsveitarmenn í nægu að snúast í borginni Beaumont um þessar mundir, en vatnlaust er í borginni. Komið hefur verið upp drykkjarstöð þar sem íbúar borgarinnar, sem eru 120.000 talsins, geta sótt drykkjarvatn.
Talið er að rúmlega 93.000 heimili hafi eyðilagst í storminum það sem af er. Um 32.000 manns dvelja nú í neyðarskýlum sem hefur verið komið upp víðs vegar í ríkinu.