Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er kominn til Houston í Texas þar sem hann ræðir við fórnarlömb flóðanna í kjölfar fellibyljarins Harvey. 47 eru látnir af völdum náttúruhamfaranna í ríkinu en vika er síðan fellibylurinn gekk á land.
Heldur er farið að sjatna vatnið á einhverjum svæðum en 43 þúsund manns hafast við í neyðarskýlum. Trump hefur beðið þingið um að samþykkja 7,9 milljarða Bandaríkjadala neyðaraðstoð. Fjárhæðinni er ætlað að veita íbúum Texas og Lousiana aðstoð.
Ríkisstjóri Texas, Greg Abbott, segir að ríkið þurfi á yfir 125 milljarða dala aðstoð að halda. Forsetafrúin, Melania Trump, er einnig með í för en hjónin ætla síðan að ræða við íbúa borgarinnar Lake Charles í Louisiana síðar í dag. Forsetinn hefur lýst sunnudaginn sem þjóðardag bænarinnar og eru landsmenn hvattir til þess að biðja fyrir fórnarlömbum fellibyljarins.