Vill 822 milljarða í neyðaraðstoð

Flóðin hafa valdið gífurlegu tjóni í bæði Texas og Louisiana.
Flóðin hafa valdið gífurlegu tjóni í bæði Texas og Louisiana. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur beðið þingið um 7,8 milljarða dala fjárveitingu til að aðstoða nauðstadda vegna flóðanna í Texas og Louisiana í kjölfar hitabeltisstormsins Harvey sem gekk yfir ríkin um síðustu helgi. Jafngildir það um 822 milljörðum íslenskra króna.

Gert er ráð fyrir að upphæðin eigi eftir að hækka enn frekar þegar tjón vegna stormsins verða að fullu ljós. Trump mun heimsækja flóðasvæðin í annað skiptið nú í dag, en áður hafði hann komið á þriðjudaginn.

Stormurinn olli gríðarlegri úrkomu á stóru svæði sem svo leiddi til flóða. Flúði mikill fjöldi fólks heimili sín og dvelja nú um 43 þúsund manns í neyðarskýlum sem hefur verið komið upp víða í ríkinu. Þá er talið að alla vega 93 þúsund heimili hafi eyðilagst í storminum og 47 látist.

Mick Mul­vaney, sem fer fyr­ir fjár­hags­áætl­un Hvíta húss­ins, segir í bréfi til Paul Ryan þingforseta að hækka þurfi skuldaþak ríkissjóðs og að ef það verði ekki gert geti það komið í veg fyrir björgunaraðgerðir. Aðeins þingið getur veitt heimild til að hækka skuldaþakið.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, hefur sagt að meira en 125 milljarða þurfi í aðstoð vegna flóðanna, en talið er að allt að 80% íbúa ríkisins hafi ekki haft flóðatryggingar. Hafa margir þegar sótt um að fá aðstoð frá ríkinu varðandi húsnæðismál eða við grundvallar viðgerðir á heimilum sínum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur óskað eftir sem svarar 822 milljörðum …
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur óskað eftir sem svarar 822 milljörðum til að aðstoða nauðstadda eftir flóðin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert