Maðurinn sem vill verða forsætisráðherra Noregs fyrir hönd norska Verkamannaflokksins, Jonas Gahr Støre, er svo vel efnum búinn að ekki þótti rétt að birta myndir af honum á heimili sínu vegna þess að hann á svo stórt og dýrt hús. Þetta sagði norsk-íslenski blaðamaðurinn Mímir Kristjánsson á fundi í Norræna húsinu í dag um norsku þingkosningarnar sem fram fara eftir viku.
Mímir flutti ræðu á fundinum, sem var samstarfsverkefni Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Norðurlanda í fókus og Norræna félagsins á Íslandi, um þingkosningarnar en hann starfar sem blaðamaður fyrir norska dagblaðið Klassekampen. Sagði hann vanda Støre, sem er leiðtogi Verkamannaflokksins, einkum þann að hann næði litlu sambandi við venjulegt fólk.
Benti hann á að lengi vel hafi verið talið að kosningarnar yrðu auðveldur sigur fyrir Verkamannaflokkinn og að minnihlutastjórn Hægriflokksins og Framfaraflokksins með stuðningi Frjálslynda flokksins og Kristilega þjóðarflokksins, færi frá. Meðal annars vegna óvinsæls niðurskurðar. Hins vegar liti nú út fyrir að ríkisstjórnin gæti haldið velli.
Leiðtoga Hægriflokksins, Ernu Solberg, hafi tekist að draga upp alþýðlega mynd af sér sem hafi gert hinum efnaða Støre erfitt fyrir. Meðal annars hefðu birst myndir af henni á heimili hennar við aðstæður sem venjulegt fólk gæti vel tengt við. Verkamannaflokkurinn hafi enn fremur lagt áherslu á að gagnrýna stöðu efnahagsmála í Noregi sem væri hins vegar frekar góð.
Þannig færi atvinnuleysi minnkandi sem væri ákveðið vandamál fyrir Verkamannaflokkinn. Fyrst efnahagsmálin væru nokkurn veginn í lagi vildi fólk síður rugga bátnum og taka þá áhættu sem fylgdi því að skipta um ríkisstjórn. Innflytjendamálin væru einnig vandamál fyrir Verkamannaflokkinn þar sem fjölmargir kjósendur hans og mögulegir kjósendur hefðu áhyggjur af þeim.
Mímir sagði Verkamannaflokkinn þannig eiga í verulegum vanda og ekki vita hvernig eigi að bregðast við honum. Eftir sem áður sagðist hann telja að flokkurinn kæmist til valda eftir þingkosningarnar en að það yrði með fylgistapi frá síðustu kosningum. Hins vegar yrðu að hans mati ekki átta flokkar á norska þinginu eftir kosningarnar heldur níu. Við bættist Rauði flokkurinn.