Íbúar eyja í Karíbahafinu búa sig nú undir komu fellibyljarins Irmu, sem skella á Leeward eyjaklasanum, austan við Púertó Ríkó, seint í dag eða á morgun. Irma hefur þegar náð styrk fjórða stigs fellibyls og hefur neyðarástandi verið lýst yfir víða, en bandaríska veðurstofan hvatti í gær fólk til þess að flýta öllum undirbúningi vegna komu Irmu.
Talið er að vindhraði Irmu geti náð allt að 60 metrum á sekúndu og líkur eru taldar á Irma eigi eftir að auka styrk sinn enn frekar á næstu tveimur sólarhringum. Að sögn CNN getur úrkoman sem búast má við með Irmu orðið allt að 25 sentímetrar og ölduhæðin allt að sjö metrar.
Fjórða stigs fellibylur er sagður geta haft hörmulegar afleiðingar í för með sér. Tré og rafmagnslínur séu líkleg til að falla auk mikils eignatjóns að sögn bandarísku fellibyljamiðstöðvarinnar NHC. Fellibylurinn Harvey sem olli miklu tjóni í Texas og Louisiana náði einnig styrkleika fjögur.
Neyðarástandi hefur þegar verið lýst yfir í Flórída og á Púertó Ríkó og er þegar búið að virkja þjóðvarðalið landsins. 3,4 milljónir manna búa á eyjunni og er þegar búið að koma upp 456 neyðarskýlum sem geta hýst um 62.000 manns.
Þá er búið að fyrirskipa verðfrystingu almennra nauðsynja á borð við mat, vatn, lyf og rafala, í Púertó Ríkó en landið hefur átt við mikla efnahagsörðugleika að stríða.
Telemundo WIPR sjónvarpsstöðin í Púertó Ríkó hefur birt myndir að fólki sem bíður í löngum röðum fyrir utan verslanir til að geta birgt sig upp af nauðsynjum á borð við vatn, vasaljós, rafala og matvæli.