Búa sig undir komu fellibyljarins Irmu

Gervihnattamynd af fellibylnum Irmu sem íbúar eyja Karíbahafsins búa sig …
Gervihnattamynd af fellibylnum Irmu sem íbúar eyja Karíbahafsins búa sig nú undir að skelli á eyjunum. AFP

Íbúar eyja í Karíbahafinu búa sig nú undir komu fellibyljarins Irmu, sem skella á Leeward eyjaklasanum, austan við Púertó Ríkó, seint í dag eða á morgun. Irma hefur þegar náð styrk fjórða stigs fellibyls og hefur neyðarástandi verið lýst yfir víða, en bandaríska veðurstofan hvatti í gær fólk til þess að flýta öllum undirbúningi vegna komu Irmu.

Talið er að vindhraði Irmu geti náð allt að 60 metrum á sekúndu og líkur eru taldar á Irma eigi eftir að auka styrk sinn enn frekar á næstu tveimur sólarhringum. Að sögn CNN getur úrkom­an sem búast má við með Irmu orðið allt að 25 sentí­metr­ar og öldu­hæðin allt að sjö metr­ar.

Hillur eru sumar orðnar tómar í verslunum í Pointe-a-Pitre á …
Hillur eru sumar orðnar tómar í verslunum í Pointe-a-Pitre á eyjunni Guadeloupe, þar sem íbúar hafa búið sig undir komu Irmu. AFP

Fjórða stigs fellibylur er sagður geta haft hörmulegar afleiðingar í för með sér. Tré og rafmagnslínur séu líkleg til að falla auk mikils eignatjóns að sögn  bandarísku fellibyljamiðstöðvarinnar NHC. Felli­byl­ur­inn Har­vey sem olli miklu tjóni í Texas og Louisi­ana náði einnig styrk­leika fjög­ur.

„Búum okkur undir það versta og vonum það besta“

Neyðarástandi hefur þegar verið lýst yfir í Flórída  og á Púertó Ríkó og er þegar búið að virkja þjóðvarðalið landsins. 3,4 milljónir manna búa á eyjunni og er þegar búið að koma upp 456 neyðarskýlum sem geta hýst um 62.000 manns.

Rick Scott ríkisstjóri Flórída lýsti yfir neyðarástandi í öllum 67 sýslum ríkisins. "Við á Flórída búum okkur alltaf undir hið versta og vonumst til þess besta og á meðan að nákvæm leið Irmu liggur ekki fyrir, þá höfum við ekki efni á að vera ekki undirbúinn," hefur CNN eftir Scott.
„Neyðarástandið gerir almannavörnum kleift að bregaðst fljótt við með hag Flórídabúa í huga án þess að sæta hömlum skrifræðis eða banna."

Þá er búið að fyrirskipa verðfrystingu almennra nauðsynja á borð við mat, vatn, lyf og rafala, í Púertó Ríkó en landið hefur átt við mikla efnahagsörðugleika að stríða.

Telemundo WIPR sjónvarpsstöðin í Púertó Ríkó hefur birt myndir að fólki sem bíður í löngum röðum fyrir utan verslanir til að geta birgt sig upp af nauðsynjum á borð við vatn, vasaljós, rafala og matvæli.

Hér er hægt að fylgjast með Irmu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka