Umdeildur þáttur í sjónvarpsþáttaröðinni um Gurru grís hefur verið tekinn úr sýningu í áströlsku sjónvarpi, í annað sinn. Um er að ræða þátt sem ber heitið Mister Skinnylegs en hann þykir senda þau óviðeigandi skilaboð að kóngulær séu vinalegar og óþarfi að óttast þær.
Í þættinum, sem er frá 2004, útskýrir pabbi Gurru (e. Peppa Pig) fyrir dóttur sinni að kóngulær séu mjög litlar og ófærar um að meiða hana. Í kjölfarið sjást barnungar persónur þáttarins vingast við kónguló.
Vandamálið er að sjálfsögðu að skilaboð pabba Gurru, sem eiga e.t.v. við í Bretlandi, þar sem þættirnir eru framleiddir, þykja ekki góð lexía fyrir áströlsk börn. Í Ástralíu eru kóngulærnar nefnilega ekki allar mjög litlar né eru þær hættulausar.
Í landinu er að finna fjölda hættulegra tegunda og samkvæmt opinberum gögnum voru 12.600 lagðir inn á sjúkrahús vegna kóngulóarbita á árunum 2000 til 2013.
Þátturinn var tekinn úr sýningu af ríkissjónvarpinu ABC árið 2012 en birtist á barnastöðinni Nick Jr. 25. ágúst sl. Stöðin neitaði í fyrstu að hætta að sýna Mister Skinnylegs en gaf eftir þegar málið komst í fjölmiðla.