Irma öflugri en Harvey

Fellibylurinn Irma hefur náð fimmta stigi og er þar með …
Fellibylurinn Irma hefur náð fimmta stigi og er þar með orðinn öflugri en fellibylurinn Harvey sem olli miklu tjóni í Texas í síðasta mánuði. AFP

Fellibylurinn Irma, sem mun skella á Leew­ard-eyja­klas­an­um, aust­an við Pú­er­tó Ríkó, seint í dag eða á morg­un, hefur nú þegar náð fimmta stigi og er flokkaður sem afar hættulegur.

Frétt mbl.is: Búa sig und­ir komu felli­bylj­ar­ins Irmu

Til samanburðar má nefna að felli­byl­ur­inn Har­vey sem olli miklu tjóni í Texas og Louisi­ana náði styrk­leika fjög­ur.

Felli­bylja­stofn­un Banda­ríkj­anna, Nati­onal Hurrica­ne Center (NHC), biðlar nú til stjórnvalda og almennings á hættusvæðinu að hraða öllum undirbúningi áður en Irma lætur til sín taka.

Fellibylurinn er nú staðsettur um 440 km austur af eyjunni Antigua í Karabíska hafinu og hefur mest náð 280 km/​klst.

Búist er við að Irma muni fyrst koma að landi við St. Martin og Antigua, sem eru í norðurhluta Leeward-eyjaklasans. Þaðan mun Irma svo halda áfram til Haítí og Flórída.

Hér er hægt að fylgjast með ferðum Irmu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert