DNA próf hefur leitt í ljós að spænsk kona sem fór fram á að lík Salvadors Dalí yrði grafið upp til að ná í sýni úr beinum og tönnum hans er ekki dóttir listamannsins. Þetta kemur fram í frétt BBC.
Lík Dalí var grafið upp fyrir u.þ.b. sex vikum að beiðni Pilar Abel, sem hélt því fram að móðir hennar hefði átt í ástarsambandi við hann árið 1955. Niðurstöður DNA-prófsins hafa loks litið dagsins ljós.
Ekki er vitað hvernig Abel brást við fréttunum en henni hefur verið sagt frá barnsaldri að Dalí sé faðir hennar og hefur hún reynt að sanna faðerni sitt síðustu 10 ár.
Samkvæmt spænskum lögum hefði Abel átt rétt á fjórðungi af auði listamannsins, sem hann arfleiddi spænska ríkinu eftir dauða sinn árið 1989, ef í ljós hefði komið að hún væri í raun einkabarn hans.