Stjórnvöld í Sýrlandi bera ábyrgð á efnavopnaárásinni sem gerð var á sýrlenska þorpið Khan Sheikhun í apríl. Tugir þorpsbúa létust í árásinni, þar af fjölmörg börn. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem Sameinuðu þjóðirnar gerðu á árásinni.
Rannsóknarnefndin í málefnum Sýrlands, UN Commission of Inquiry (COI), segir að hún hafi undir höndum víðtækar upplýsingar sem sýni að yfirvöld í Damaskus hafi staðið á bak við hryllinginn í Khan Sheikhun 4. apríl þar sem að minnsta kosti 83 létust.
Sarín-taugagasi var beitt í árásinni á sýrlenska þorpið Khan Sheikhun 4. apríl. Þetta er niðurstaða rannsóknar alþjóðlegu efnavopnastofnunarinnar OPCW (Organisation for the Prohibition of Chemical Weapons).
Á Vísindavef Háskóla Íslands segir um sarín:
„Sarín er eiturefni í flokki lífrænna fosfórsambanda. Efni þessi voru fyrst búin til skömmu fyrir heimstyrjöldina síðari hjá lyfjafyrirtækinu Bayer í Þýskalandi í þeim tilgangi að nota þau til útrýmingar á skordýrum. Eitt þessara efna var sarín. Þegar í ljós kom hve mikilvirk efnin voru skipuðu þýsk hernaðaryfirvöld verksmiðjunni að halda uppgötvuninni leyndri, en þau sáu fyrir að þessi efni mætti nota í hernaði. Á stríðsárunum var tilraunum með framleiðslu þeirra haldið áfram og í lok stríðsins er talið að um 2000 afbrigði þessara efna hafi verið framleidd. Engu þeirra var þó nokkurn tíma beitt í stríðinu.
Efni af þessari tegund verka með þeim hætti að þau trufla starfsemi tauga, sem nota asetýlkólín sem boðefni og hafa því oft verið nefnd taugagös. Eitranir geta ýmist orðið með þeim hætti að menn anda þeim að sér, fá þau í gegnum húð eða neyta mengaðra matvæla. Talið er að 1-5 millígrömm (þúsundustu hlutar úr grammi) af saríni nægi til þess að verða manni að bana ef hann andar því magni að sér á innan við mínútu,“ segir á Vísindavef HÍ.