Manuel Cerna er ákærður fyrir morð. Hann hefur nú setið í fangelsi á Filippseyjum í 15 ár án þess að dómur hafi verið kveðinn upp í máli hans. Cerna, sem er ekki hans rétta nafn, er einn fjölmargra fanga sem þurfa að bíða að því er virðist óendanlega lengi eftir að mál þeirra sé tekið fyrir. Búist er við að biðtíminn muni lengjast enn frekar með þeim fjölda mála sem hafa bæst við eftir að Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hóf fíkniefnastríð sitt.
Dómskerfið á Filippseyjum hafði fyrir það orð á sér að vera verulega hægfara og undirmannað. Flóðbylgja nýrra mála í kjölfar fíkniefnastríðsins, sem ætlað er að uppræta fíkniefnabölið alfarið á Filippseyjum, hefur gert lítið til að bæta stöðuna.
Mál hins sextuga Cerna, sem komst nærri því að deyja úr berklum í einu fjölmennasta fangelsi landsins þar sem hann býður málsmeðferðar, er ekki það óvenjulegt. AFP-fréttastofan bendir á að Cerna sé nú gott sem búinn að sitja í fangelsi þann tíma sem lágmarksdómur í máli hans hefði hljóðað upp á verði hann fundinn sekur.
„Ég verð þunglyndur. Nokkrir hér hafa framið sjálfsmorð af því að eiginkonur þeirra hafa yfirgefið þá. Þeir hafa misst alla von um að öðlast frelsi,“ sagði Cerna við AFP-fréttastofuna. Viðtalið var tekið í fangelsi í Manila innan um ryðgaðan gaddavír og dauninn af rotnandi matarleifum.
Fangar á borð við Cerna hafa hlotið viðurnefnið „tugur“ [e. decader] af því að þeir hafa dvalið innan fangelsismúranna í áratug eða lengur án þess að hafa hlotið dóm. Þeir eru meðal afleiðinga meingallaðs réttarkerfis sem átti sinn þátt í því að Duterte náði forsetakjöri á síðasta ári.
Duterte vann kosningarnar m.a. með loforði um skjótt réttlæti, aðallega með því að drepa tugþúsundir glæpamanna og með því að sýna enga miskunn gagnvart þeim sem hlotið hafa dóm og föngum sem ekki eru taldir færir um endurhæfingu.
Filippseyska lögreglan hefur líka skotið þúsundir manna í fíkniefnarassíum sínum í leit að fíkniefnasölum og fíklum í fátækari hverfum borga landsins. Mannréttindasamtök hafa líka gagnrýnt drápin sem þau segja vera morð án dóms og laga.
AFP segir með þessu móti efalaust hafa tekist að koma í veg fyrir fjölda réttarhalda, en 96.700 manns hafa engu að síður verið handtekin sem lið í fíkniefnastríðinu, að sögn talsmanns forsetans, frá því að Duterte tók við. Með því hefur þrýstingur aukist enn frekar á troðfull fangelsi landsins, sem fyrir hýstu rúmlega sex sinnum fleiri fanga en þau voru byggð fyrir.
Sakborningarnir þurfa oft að bíða mánuðum saman eftir réttarhöldum og þá er þeim jafnvel frestað aftur vegna veikinda dómara, saksóknari mæti ekki eða af því að lögfræðingur sakborningsins er upptekinn við önnur mál. Í sumum tilfellum er málinu þá vísað til annars dómara og allt ferlið hefst frá byrjun.
Í sumum þeirra mála þar sem fátækir sakborningar fá úthlutað verjanda frá ríkinu þá flakka málin milli lögfræðinga, sem gleyma þá jafnvel að senda með nauðsynleg gögn eða jafnvel týna þeim og málatilbúnaðurinn þarf þá enn og aftur að hefjast frá byrjun.
„Réttarkerfið er á kafi í flóðbylgju, en dómstólum, dómurum, saksóknurum eða almennum verjendum hefur ekkert fjölgað,“ segir Raymund Narag, aðstoðarprófessor við Southern Illinois University í Bandaríkjunum.
„Dráp án dóms og laga eru svo sögð réttlætanleg á Filippseyjum vegna hruns refsiréttar kerfisins. Þetta er orðinn vítahringur.“
Meðferðartími dómsmála í landinu er nú að meðaltali 6-10 ár að sögn eru nú mannréttindalögfræðingsins Jose Manuel Diokno.
Þá sagði nefnd á vegum Hæstaréttar sem rannsakaði teppuna í fangelsum landsins á síðasta ári að „saklaus maður sæti fimm ár í fangelsi hið minnsta áður en hann að lokum væri sýknaður.“
Einn helsti vandinn er skortur á dómstólum, saksóknurum og dómurum. Filippseyingar eru 100 milljón talsins en dómstólarnir eru bara 2.600 að því er Midas Marquez, umsjónarmaður Hæstaréttar sagði AFP. Þar af eru engir dómarar starfandi við 30% dómstólanna.
Verkefnið þeirra dómstóla sem eftir standa er yfirþyrmandi og dæmi um að dómarar séu með allt að 5.000 mál á sinni könnu í einu.
Hæstiréttur Filippseyja hefur á undanförnum árum leitað lausna á vandanum, m.a. með því að taka upp tölvuskráningu mála og festa málsmeðferð á stundatöflu. Annars geta liðið mánuðir án þess að nokkuð gerist.
„Þetta er hins vegar bara plástur á sárið. Það sem við þurfum eru lausnir á borð við fjölgun dómstóla og fjármögnun þeirra, sem krefst stuðnings þings og framkvæmdavalds,“ segir Marquez.
Antonio Kho, aðstoðar dómsmálaráðherra, segir stjórnvöld nú vera á fullu við að ráða hundruð nýrra saksóknara og bæta þjálfun starfsfólks.
Duterte hefur líka lofað auknu fjármagni í hegningakerfið á næsta ári. Hann hefur hins vegar líka ítrekað látið falla yfirlýsingar sem vekja spurningar um hvort að hann hafi raunverulega hug á að bæta aðstæður í fangelsum landsins.
„Ég kýs að þeir [fangarnir] sofi standandi,“ sagði Duterte í mars á þessu ári er hann var spurður út í vandann sem fylgir yfirfullum fangelsum.“ Þá hefur hann líka fullyrt að margir fanganna vilji vera áfram innan rimlanna af því að þeir hafi orðið samkynhneigðir við fangelsisdvölina og að þeir njóti þess að fá reglulegar máltíðir.
„Þeir vilja ekki fara út. Maturinn er ókeypis og eiga ástmann, þeir eru ástfangnir og þá vilja þeir vera þar,“ sagði Duterte og fullyrti að enginn gæti hlotið endurhæfingu í fangelsum landsins. „Þeir eru nú þegar skrýmsli.“
„Hinn meinti morðingi Cerna fullyrðir hins vegar að hann sé saklaus og syrgir árin sem hann hefur setið inni fjarri fjölskyldu sinni. „Þegar móðir mín dó þá langaði mig að brotna saman. Mig langað að öskra en ég gat ekkert gert nema grátið,“ segir Cerna. „Ég gat ekkert hjálpað á þeim árum þegar hún var dauðvona.“