Þegar 83,5% hafa verið talin á landsvísu í þingkosningunum í Noregi sem fram fóru í dag eru hægriflokkarnir með samanlagt 49.7% fylgi en vinstriflokkarnir 49,5%. Það gefur hægrilokkunum samtals 89 þingsæti en vinstriflokkunum 80 sæti.
Fari kosningarnar á þessa leið er ljóst að hægriflokkarnir fara áfram með stjórn Noregs. Minnihlutastjórn Hægriflokksins og Framfaraflokksins hafa farið með völdin í landinu undanfarin tvö ár með stuðningi Frjálslynda flokksins (Venstre) og Kristilega þjóðarflokksins. Flokkarnir fjórir höfðu hins vegar samanlagt 96 þingsæti á síðasta kjörtímabili.
Flokkarnir fjórir tapa allir fylgi sem og Verkamannaflokkurinn sem hefur verið helsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Hinir vinstriflokkarnir sem mælast með þingmenn inni bæta allir við sig. Þar á meðal róttæki vinstriflokkurinn Rødt sem var ekki með þingmenn fyrir. Flokkurinn mælist með einn þingmann. Mestu bætir Miðflokkurinn við sig.
Verkamannaflokkurinn er með mest fylgi eða 27,5%, Hægriflokkurinn kemur í kjölfarið með 25,3%, Framfaraflokkurinn hefur fengið 15%, Miðflokkurinn 10,3%, Sósíalíski vinstriflokkurinn 6%, Frjálslyndi flokkurinn (Venstre) 4,2%, Kristilegi þjóðarflokkurinn 4,2%, Umhverfisflokkurinn 3,2% og Rødt fær 2,5% ef fer sem horfir.