„Við höfum hlotið umboð fyrir næstu fjögur ár,“ sagði Erna Solberg leiðtogi norska Hægri flokksins þegar úrslit norsku þingkosninganna lágu fyrir. Ljóst þykir að Solberg verði áfram forsætisráðherra þegar búið er að telja 95,1% atvæða á landsvísu.
Hægri flokkarnir hafa nú fengið samanlagt 1,408.592 atkvæða, en vinstri flokkarnir 1,416.085. Það gefur hægri flokkunum samtals 89 þingsæti en vinstri flokkunum 80 sæti.
Flokkarnir fjórir tapa allir fylgi sem og Verkamannaflokkurinn sem hefur verið helsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Hinir vinstriflokkarnir sem mælast með þingmenn inni bæta allir við sig. Þar á meðal róttæki vinstriflokkurinn Rødt sem var ekki með þingmenn fyrir. Flokkurinn mælist með einn þingmann. Mestu bætir Miðflokkurinn við sig.
„Okkar markmið var að Noregur fengi nýja stjórn. Við vissum að þetta yrði erfitt verkefni. Vinstri hliðin hefur bætt sig en það dugar ekki til, Jonas Gahr Støre leiðtogi Verkamannaflokksins þegar úrslit lágu fyrir.
Solberg hefur þegar boðið hægri flokkunum fjórum til stjórnarviðræðna, en norska ríkisútvarpið NRK segir henni þó ekki endilega eiga eftir að reynast auðvelt að mynda stjórn. Þannig hafi Kristilegi þjóðarflokkurinn, sem varði minnihlutastjórn Hægriflokksins og Framfaraflokksins falli ásamt Frjálslynda flokknum, gefið upp að hann ætli sér ekki að vera stuðningsflokkur að þessu sinni.
Meðal annarra úrslita í kosningunum er að 70 konur munu sitja á norska þinginu á næsta kjörtímabili og verður hlutfall kvenna á þinginu þá í fyrsta skipti hærra en 40%. Einnig var sett met varðandi hlutfall þingkvenna á síðasta kjörtímabili, þegar 67 konur komust á þing.
Hlutfall þingkvenna á Alþingi hér á landi er 48% og hafa þær aldrei verið fleiri.