8 íbúar hjúkrunarheimilis dánir vegna Irmu

Lögreglumaður girðir hér af hjúkrunarheimilið þar sem 8 létust, að …
Lögreglumaður girðir hér af hjúkrunarheimilið þar sem 8 létust, að því er virðist vegna skorts á loftkælingu. AFP

Lögreglan í Flórída rannsakar nú dauða átta íbúa hjúkrunarheimilis í Hollywood-hæðum í kjölfar fellibyljarins Irmu. Mikill hiti og raki hefur verið á svæðinu eftir að Irma tók rafmagn af stórum hluta svæðisins.

Forsvarsmenn hjúkrunarheimilisins The Rehabilitation Center segja íbúana, sem voru á aldrinum 71-99 ára, hafa látist „í kjölfar langvarandi skorts á lofkælingu vegna fellibyljarins Irmu“.

Hjúkrunarheimilið varð ekki rafmagnslaust í fellibylnum, en missti síðan straumbreyti sem sá um að keyra loftkælinguna að því er Jorge Carballo, yfirmaður hjúkrunar á heimilinu, sagði í yfirlýsingu seint í gær.

Hann sagði forsvarsmenn hjúkrunarheimilisins strax hafa haft samband við orkuveitu Flórída og haft reglulega samband til að komast að því hvenær kerfið yrði lagað. Þá var haft samband við björgunarsveitir á staðnum. Carballo sagði þó ekki hvenær það hefði verið gert.

„Starfsfólk setti upp viftur til að kæla aðstöðuna og fylgdist reglulega með íbúum til að tryggja að þeir fengju nægan vökva,“ sagði Carballo og kvað það vera miður sín vegna málsins.

Fréttastofa CNN segir forsvarsmenn hjúkrunarheimilisins vera í hópi fjölda annarra sem hafi gagnrýnt yfirvöld í Flórída og að sífellt fleiri krefjist svara um hvers vegna ekkert hafi verið gert.

Einn íbúa hjúkrunarheimilisins lést á heimilinu á þriðjudag og þrír til viðbótar fundust látnir á annarri hæð hússins þegar björgunarsveitir mættu á staðinn. Fjórir til viðbótar létust síðan  á sjúkrahúsi eftir að búið var að rýma hjúkrunarheimilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert