Lögregla ætlaði að hjálpa Singh að flýja

Trúarleiðtoginn Gurmeet Ram Rahim Singh. Lögreglumennirnir eru sagðir hafa orðið …
Trúarleiðtoginn Gurmeet Ram Rahim Singh. Lögreglumennirnir eru sagðir hafa orðið stuðningsmenn hans á árunum sem þeir áttu að tryggja öryggi hans. AFP

Fjórir indverskir lögreglumenn hafa verið handteknir fyrir að reyna að hjálpa trúarleiðtoganum Gurmeet Ram Rahim Singh að flýja, eftir að hann var dæmdur sekur um nauðgun í síðasta mánuði.

BBC hefur eftir AS Chawla, lögregluforingja í Punjab-héraði, að þrír lögreglumannanna séu frá Haryana-fylki og einn frá Rajasthan.

Eru þeir sagðir hafa verið hluti af flóttaáætlun Singh, en ekki var greint nánar frá hvernig hann ætlaði að flýja.

38 manns létust í mótmælum sem brutust út í bænum Panchkula þegar kunngert var að Singh hefði verið dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir að nauðga tveimur konum úr hópi stuðningsmanna sinna.

Lögreglumennirnir voru hluti af öryggissveit sem stjórnvöld höfðu útvegað Singh og segja indverskir fjölmiðlar þá hafa orðið stuðningsmenn Singh á árunum sem þeir störfuðu með honum. Eru lögreglumennirnir sagðir hafa verið í öryggissveitinni sem fylgdi Singh að dómshúsinu í Panchkula vegna uppkvaðningar dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert