Viðbúnaðarstig í Bretlandi hefur verið hækkað og er nú á hæsta stigi, eftir að sprenging varð í lestarvagni við Parsons Green-lestarstöðina í London í morgun. Therasa May, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti þetta nú fyrir skömmu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
29 voru fluttir á sjúkrahús eftir sprenginguna, en ekkert manntjón varð. Flestir þeirra sem slösuðust eru með brunasár. Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni, en þetta er fimmta hryðjuverkaárásin í Bretlandi á sex mánuðum.
Viðbúnaðarstigið fór frá því að vera verulegt í krítískt sem þýðir að taldar eru líkur á annarri hryðjuverkárás.
May segir þetta hafa þau áhrif að almenningur mun sjá fleiri vopnaða lögreglumenn við samgöngumannvirki borgarinnar. Þetta sé nauðsynleg aðgerð til að auka öryggi borgarinnar á meðan rannsókn á árásinni fer fram.
Sprengjunni, sem sprakk klukkan 8:20 í morgun, var komið fyrir í innkaupapoka í lestarvagni og svo virðist vera að hún hafi ekki virkað sem skyldi.