Maria aftur orðin 5. stigs fellibylur

Einn lét lífið og tveggja er saknað eftir að fellibylurinn …
Einn lét lífið og tveggja er saknað eftir að fellibylurinn Maria fór yfir eyjuna Guataloupe og skemmdir eru nokkrar í borgini Pointe-a-Pitre. AFP

Fellibylurinn Maria hefur nú aftur náð styrk fimmta stigs fellibyls og er vindhraðinn nú orðinn 265 km/klst. Fellibylurinn stefnir nú á eyjuna Púertó Ríkó, sem varð fyrir mikilli eyðileggingu fyrir skemmstu er fellibylurinn Irma fór þar yfir fyrr í mánuðinum, en Maria fylgir að miklu leyti sömu leið og Irma.

Vitað er til þess að Maria hafi kostað einn mann lífið á eyjunni Guataloupe og tveggja til viðbótar er saknað að því er BBC greinir frá.

„Engin kynslóð hefur upplifað fellibyl á borð við þennan frá því San Felipe II fór yfir árið 1928, hefur CNN eftir Ricardo Rosselló ríkisstjóra Púertó Ríkó í dag. „Þetta er veðrakerfi sem á sér engin fordæmi.“

Tré hafa víða látið undan styrk Mariu, m.a. í þorpinu …
Tré hafa víða látið undan styrk Mariu, m.a. í þorpinu Petit Bourg á Guadeloupe. AFP

Hvatti hann íbúa til að leita sér samstundis skjóls, þar sem björgunarsveitir muni ekki geta komið þeim til aðstoðar þegar vindhraðinn verður of mikill.

„Við verðum að hafa í huga að við verðum líka að verja líf björgunarsveitarmanna. Það er tími núna til að grípa til aðgerða og finna sér öruggan stað fyrir þá sem búa á svæðum þar sem hætta er á flóðum, eða þar sem byggingar eru viðkvæmar,“ bætti hann við.

Maria missti nokkuð af styrk sínum er hún fór eyjuna Dóminíku í dag og varð þá um tíma fjórða stigs fellibylur.

Gríðarleg eyðilegg­ing blas­ir við á Dóm­iníka eft­ir að Maria nam þar land, að sögn for­sæt­is­ráðherr­ans, Roosevelt Sker­rit. „Við höf­um misst allt sem hægt er að kaupa fyr­ir pen­inga,“ skrif­aði hann á Face­book.

Bústaður forsætisráðherrans líkt og heimili fjölda annarra íbúa Dóminíku er rústir einar eftir fellibylinn, en Maria er öflugasti fellibylur sem farið hefur yfir eyjuna frá því skráningar hófust.

Yfirvöld á Púertó Ríkó óttast að brakið sem enn liggur víða eftir eyðilegginguna sem Irma olli kunni nú að reynast hættulegt þegar Maria fer þar yfir.

Íbúar á eyjunni Martinique virða fyrir sér eyðilegginguna sem fylgdi …
Íbúar á eyjunni Martinique virða fyrir sér eyðilegginguna sem fylgdi för Mariu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert