Fellibylurinn Maria hefur nú aftur náð styrk fimmta stigs fellibyls og er vindhraðinn nú orðinn 265 km/klst. Fellibylurinn stefnir nú á eyjuna Púertó Ríkó, sem varð fyrir mikilli eyðileggingu fyrir skemmstu er fellibylurinn Irma fór þar yfir fyrr í mánuðinum, en Maria fylgir að miklu leyti sömu leið og Irma.
Vitað er til þess að Maria hafi kostað einn mann lífið á eyjunni Guataloupe og tveggja til viðbótar er saknað að því er BBC greinir frá.
„Engin kynslóð hefur upplifað fellibyl á borð við þennan frá því San Felipe II fór yfir árið 1928, hefur CNN eftir Ricardo Rosselló ríkisstjóra Púertó Ríkó í dag. „Þetta er veðrakerfi sem á sér engin fordæmi.“
Hvatti hann íbúa til að leita sér samstundis skjóls, þar sem björgunarsveitir muni ekki geta komið þeim til aðstoðar þegar vindhraðinn verður of mikill.
„Við verðum að hafa í huga að við verðum líka að verja líf björgunarsveitarmanna. Það er tími núna til að grípa til aðgerða og finna sér öruggan stað fyrir þá sem búa á svæðum þar sem hætta er á flóðum, eða þar sem byggingar eru viðkvæmar,“ bætti hann við.
Maria missti nokkuð af styrk sínum er hún fór eyjuna Dóminíku í dag og varð þá um tíma fjórða stigs fellibylur.
Gríðarleg eyðilegging blasir við á Dóminíka eftir að Maria nam þar land, að sögn forsætisráðherrans, Roosevelt Skerrit. „Við höfum misst allt sem hægt er að kaupa fyrir peninga,“ skrifaði hann á Facebook.
Bústaður forsætisráðherrans líkt og heimili fjölda annarra íbúa Dóminíku er rústir einar eftir fellibylinn, en Maria er öflugasti fellibylur sem farið hefur yfir eyjuna frá því skráningar hófust.
Yfirvöld á Púertó Ríkó óttast að brakið sem enn liggur víða eftir eyðilegginguna sem Irma olli kunni nú að reynast hættulegt þegar Maria fer þar yfir.