Vill fá að skila Michelin-stjörnunum

Sebastien Bras ásamt föður sínum Michel árið 2014.
Sebastien Bras ásamt föður sínum Michel árið 2014. AFP

Matreiðslumeistari í suðurhluta Frakklands, sem hefur verið verðlaunaður þremur Michelin-stjörnum, hefur óskað eftir því að „skila“ stjörnunum vegna þess gríðarlega álags sem hlýst af því að þurfa stöðugt að reiða fram óaðfinnanlegan mat.

Le Suquet, veitingastaður Sebastien Bras í þorpinu Laguiole, varð þess heiðurs aðnjótandi að hljóta þrjár Michelin-stjörnur í Michelin-handbókinni árið 1999. Um er að ræða fágætt afrek en aðeins 27 franskir veitingastaðir hampa þremur stjörnum.

Bras greindi hins vegar frá því í dag að hann vildi ekki vera með í 2018-útgáfu Michelin-handbókarinnar, þar sem hann vildi heldur einbeita sér að því að hefja „nýjan kafla.“

Hann sagðist stjörnurnar hafa veitt sér umtalsverða ánægju en heiðurinn hefði jafnframt verið honum þungbær.

„Þú ert tekinn út tvisvar til þrisvar á ári og þú veist aldrei hvenær. Hver einasta máltíð sem send er úr eldhúsinu gæti mögulega verið tekin út. Það þýðir að á hverjum degi gæti ein af þeim 500 máltíðum sem fara úr eldhúsinu verið dæmd,“ sagði matreiðslumeistarinn.

„Kannski dregur úr frægð minni en ég er sáttur við það,“ bætti hann við og sagðist myndu halda áfram að valda matgæðingum undrun og ánægju „án þess að þurfa að velta því fyrir mér hvort sköpunarverk mín þóknast rannsakendum Michelin.“

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem franskur matreiðslumaður biður um að vera skilin útundan, án þess að miklar breytingar standi fyrir dyrum.

„Við höfum meðtekið ákvörðunina og virðum hana,“ sagði Claire Dorland Clauzel, sem á sæti í framkvæmdastjórn Michelin. Hún sagði Le Suquet hins vegar ekki myndu detta sjálfkrafa úr handbókinni; málið yrði skoðað.

Bras, sem erfði staðinn frá föður sínum fyrir áratug, sagðist oft hugsa til Bernard Loiseau, fransks matreiðslumanns sem er sagður hafa framið sjálfsvíg árið 2013 vegna orðróms um að til stæði að svipta hann þriðju Michelin-stjörnunni.

„Ég er ekki í þeim hugleiðingum,“ bætti Bras þó fljótur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert