15 látnir á Dominíku eftir Maríu

Íbúar San Juan, höfuðborgar Púertó Ríkó ganga milli þakplatna og …
Íbúar San Juan, höfuðborgar Púertó Ríkó ganga milli þakplatna og annars braks sem fylgdi fellibylnum Maríu. AFP

15 manns hið minnsta létust er fellibylurinn María fór yfir eyjuna Dóminíku á Karíbahafi og 20 til viðbótar er saknað. Roosevelt Skerrit forsætisráðherra Dóminíku segir kraftaverk að fjöldi látinna skipti ekki hundruðum.

María var fjórða stigs fellibylur er hún fór yfir Dóminíku á mánudag og olli tjóni á hundruðum heimila.

Púertó Ríko varð einnig illa fyrir barðinu á Maríu, er fellibylurinn fór þar yfir í gær og eru allir íbúar eyjunnar, 3,5 milljónir manna, nú án rafmagns.

Aldrei séð aðra eins eyðileggingu

BBC hefur eftir Skerrit að hann hafi eytt sl. sólarhring í að kynna sér eyðilegginguna sem María olli úr lofti. „Þetta er grimmilegt. Við höfum aldrei séð aðra eins eyðileggingu.“

Hús splundruðust, skólabyggingar eyðilögðust og símasamband liggur niðri. Þá er stærsta sjúkrahús Dóminíku enn án rafmagns og vegna flóðanna hefur ekki verið talið öruggt að ræsa vararafal sjúkrahússins.

Þakið rifnaði af þessum skóla í San Juan.
Þakið rifnaði af þessum skóla í San Juan. AFP

Dóminíka „þarf á allri þeirri aðstoð að halda sem heimurinn getur boðið, „ sagði Skerrit.

Hætta á skyndiflóðum á Púertó Ríkó

Yfirvöld á Púertó Ríkó hafa hvatt íbúa þar til að halda sig á hærri stöðum eyjunnar þar sem hætta sé á skyndiflóðum, vegna úrhellisrigningar sem fylgt hefur í kjölfar Maríu. Spáð er að allt að 76 sm af regni kunni að falla.

Ricardo Rossello, ríkisstjóri Púertó Ríkó, hefur sagt Maríu hafa valdið meira tjóni en nokkur fellibylur í heila öld“, en María olli svo miklum skemmdum á rafmagnsneti eyjunnar að talið er að það muni taka mánuði að koma rafmagni að fullu á að nýju.

María fer nú yfir Domíníska lýðveldið sem þriðja stigs fellibylur og er næst á leið að eyjunum Turks & Caicos.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka