Þúsundir Filippseyinga tóku í dag þátt í mótmælaaðgerðum gegn umdeildri stefnu Rodrigo Dutertes forseta Filippseyja í stríðinu gegn fíkniefnum. Duterte hefur hótað að taka upp herlög að nýju og þúsundir hafa verið drepnar í stríðinu gegn fíkniefnum frá því hann tók við völdum.
Paolo, sonur forsetans, á nú yfir höfði sér ákæru vegna fíkniefnasmygls og sagði Duterte að reyndust ásakanirnar sannar þá muni hann heimila dráp hans.
„Mínar skipanir eru að drepa þig ef að þú næst og ég mun vernda lögreglumennina sem drepa þig ef þetta er satt,“ sagði Duterte fjölmiðlum að skilaboð hans hefðu verið til sonarins.
Paolo, sem er á fimmtugsaldri, kom fyrir þingnefnd fyrr í mánuðinum og fullyrti þá að ásakanir um að hann hafi átt þátt í að smygla eiturlyfjum frá Kína til Filippseyja væru ekkert annað en staðlaust slúður.
Duterte hefur ítrekað varið dráp lögreglu án dóms og laga á grunuðum einstaklingum í fíkniefnamálum og hefur raunar hvatt bæði almenning og lögreglu til slíkra drápa, þrátt fyrir harða gagnrýni alþjóðasamfélagsins.
Mótmælendur sem komu saman í dag fyrir utan forsetahöllina í Manila báru skilti með áletrunum á borð við „Stöðvið drápin“ og „Engin herlög“, en að sögn BBC óttast margir að Duterte muni setja á herlög, líkt og einræðisherrann Ferdinand Marcos gerði fyrir nákvæmlega 45 árum síðan.
Varaforseti landsins, Leni Robredo, er frjálslyndur stjórnmálamaður sem ekki bauð sig fram til embættis ásamt Duterte hvatti landsmenn til að minnast arfleifðar Marcos. „Ef við minnumst ekki fortíðar, þá erum við dæmd til að endurtaka hana,“ sagði Robredo.
Duterte hefur verið gagnrýndur fyrir að sýna samkennd með Maros fjölskyldunni og hefur hann raunar sagt opinberlega að hann dáist að hörkunni sem hann sýndi.