„Eyjan okkar hefur verið lögð í rúst“

Útlit er fyrir að fellibylurinn María hafi lagt eyjuna Púertó Ríkó í rúst. Greint var frá því fyrr í kvöld að eyjan sé með öllu rafmagnslaus, en þar búa 3,5 milljónir manna, eftir að María fór þar yfir sem fjórða stigs fellibylur.  Abner Gó­mez Cortés, yf­ir­maður almannavarna, segir fellibylinn hafa rifið þök af húsum og mikil flóð eru sögð hafa fylgt í kjölfar Maríu, ekki hvað síst í höfuðborginni San Juan, þar sem íbúagötur minna sumar á stórár.

Þegar við getum loks farið út aftur munum við sjá að eyjan okkar hefur verið lögð í rúst,“ sagði Cortés á fréttamannafundi. Útgöngubann var sett á í kvöld og var íbúum bannað að vera á ferli frá því sex í kvöld og þar til sex í fyrramálið til að gera björgunarsveitum kleift að sinna sínum störfum óhindrað.

Tré féllu á götur höfuðborgar Púertó Ríkó þegar fellibylurinn María …
Tré féllu á götur höfuðborgar Púertó Ríkó þegar fellibylurinn María fór þar yfir. 3,5 milljónir íbúa eyjunnar eru án rafmagns og talið er að það muni taka allt upp undir hálft ár þar til rafmagn verður að fullu komið á aftur. AFP

„Hættan er ekki liðin hjá. Það er flóðaviðvörun í gangi fyrir alla  Púertó Ríkó,“ sagði ríksstjórinn Ricardo Rossello í Twitter-skilaboðum til íbúa þegar María hélt á haf út á ný. „Haldið kyrru fyrir í öruggu skjóli.“

Eyðileggingin ólík öllu

Carmen Yulín Cruz, borgarstjóri San Juan, sagði fréttastofu MSNBC-sjónvarpsstöðvarinnar að eyðileggingin í höfuðborginni væri ólík nokkru sem hún hefði séð áður.

„Sú San Juan sem við þekktum í gær er ekki lengur til,“ sagði Yulín. „Við erum að horfa á 4-6 mánuði án rafmagns. Ég óttast mest að við getum ekki komið öllum til bjargar í tæka tíð og það liggur þungt á mér.“

Vegir á Púertó Ríkó hafa farið undir flóðavatn sem fylgdi …
Vegir á Púertó Ríkó hafa farið undir flóðavatn sem fylgdi fellibylnum Maríu. AFP

María er öflugasti fellibylur sem farið hefur yfir Púertó Ríkó, sem þó varð illa fyrir barðinu á fellibylnum Irmu nú fyrr í mánuðinum.

Hljómaði eins og sprengjur

Rosanna Cerezo, lögfræðingur sem einnig er með útvarpsþátt í höfuðborginni, sagði San Juan vera á kafi. „Það hljómaði eins og sprengjur væru að springa þegar vindurinn feykti trjám um koll og á húsin,“ sagði hún.

Við strandlengjuna hafa steinsteypubyggingar rifnað frá grunni.

„Þök hrundu og gluggar splundruðust,“ sagði Cerezo í textaskilaboðum til MSNBC. „Fólk hjúfrar sig saman á göngum, í skápum og á baðherbergjum.

Ljósastaurar og skilti urðu fyrir barðinu á Maríu í San …
Ljósastaurar og skilti urðu fyrir barðinu á Maríu í San Juan. AFP

500 at­hvörf voru sett á lagg­irn­ar á Púertó Ríkó þar sem fólk gat leitað skjóls vegna fellibyljarins.

Þá er vitað til þess að sjö hafi látist af völdum Maríu á eyj­unni Dóm­iníku.

Næsta stopp Dóminíska lýðveldið

María missti nokkuð af styrk sínum er hún fór yfir Púertó Ríkó, en nú þegar fellibylurinn er aftur kominn út á opið haf getur hann öðlast sinn fyrri styrk og orðið fjórða stigs fellibylur að nýju samkvæmt upplýsingum frá bandarísku fellibyljamiðstöðinni.

Útlit er fyrir að María fari næst yfir Dóminíska lýðveldið og eyjarnar Turks & Caicos, en eftir það er talið að fellibylurinn haldi í lengra í austurátt en áður hafði verið talið, m.a. vegna hæðar sem nú liggur yfir austurhluta Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert