13 látist í Púertóríkó

Gríðarleg flóð eru í Púertó Ríkó.
Gríðarleg flóð eru í Púertó Ríkó. AFP

13 manns létust hið minnsta í Púertóríkó þegar fellibylurinn María reið yfir landið. Ríflega 700 manns var bjargað úr gríðarlega miklu flóði sem fylgdi í kjölfarið. Vatnsyfirborðið hækkaði allt að fjóra metra. Enn rignir á svæðinu og rafmagnslaust eru víða og verður næstu mánuði. 

Ricardo Rossello, ríkisstjóri Púertóríkó, sagði að fellibylurinn María hefði valdið mestri eyðileggingu á landinu á þessari öld. Rafmagns- og fjarskiptakerfi liggur niðri, auk þess eru innviðir landsins bágbornir.   

Alls búa 3,4 millj­ón­ir í Pú­er­tóríkó og kom felli­byl­ur­inn fyrst að landi á suðaust­ur­strönd­inni á miðvikudaginn.

„Hluti landsvæðisins er án fjarskiptasambands og því áætlum við í fyrstu að 13 manns hafi látist,“ sagði Rossello við CNN í dag. Hann sagði jafnframt að 24 klukkustundir væru liðnar frá því fellibyljaviðvöruninni var aflétt. „Núna reynum við að tryggja öryggi allra,“ sagði hann.

Fellibyljamiðstöðin varar við gríðarlega mikilli rigningu sem gæti náð því að vera rúmlega metri. Mikil hætta er einnig á aurskriðum.  

„Það er mikið flóð. Við fáum fréttir af fjölmörgum húsum sem eru ónýt. Enn rignir á svæðinu,“ sagði Rossello

Að minnsta kosti 33 hafa látið lífið af völdum Maríu, 15 í Dóminíku, þrír á Haítí og tveir í Guadeloupe.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka