Eymdin eykst dag frá degi

Aðstæður íbúa í Púertó Ríkó versna dag frá degi þar sem dagurinn fer í að standa í biðröð eftir mat og eldsneyti. Enn er rafmagnslaust og fjarskiptasamband liggur enn niðri.

Biðröðin getur tekið marga klukkutíma og ef fólk er of seint af stað þá á það á hættu að fara tómhent heim þar sem útgöngubann skellur á en það gildir frá kvöldi til morguns. Farsímasamband er stopult og flest hótel eru að verða uppiskroppa með eldsneyti á dísilvélar. 

Vatni safnað í Púertó Ríkó.
Vatni safnað í Púertó Ríkó. AFP

Framkvæmdastjóri Marriott hótelsins í miðborg San Juan greindi gestum frá því í dag að ef ekki tækist að útvega dísil fyrir kvöldið þá yrði að rýma allt hótelið.

Fellibylurinn Maria fór yfir eyjuna aðfararnótt miðvikudags og var þá fjórða stigs fellibylur. Vitað er um að 33 létust á eyjum Karíbahafinu þegar Maria fór þar um. Flestir þeirra á Dóminíka en 13 í Púertó Ríkó.

Yfirvöld í Púertó Ríkó eru einnig að reyna ða forða fólki á brott af heimilum sínum við stíflu sem er við það að bresta. 

AFP

Stíflan, sem er frá þriðja áratug síðustu aldar, er í Guajataca-ánni í norðvesturhluta eyjunnar. Hluti hennar brast á föstudaginn og fyrirskipuðu yfirvöld 70 þúsund íbúum að yfirgefa heimili sín af ótta við skyndiflóð.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka