Yfir 34 þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín umhverfis kraumandi eldfjallið Mount Agung, á indónesísku eyjunni Balí, vegna vaxandi ótta yfir því að eldgos hefjist á hverri stundu. Það yrði þá í fyrsta skipti sem fjallið gýs frá árinu 1963. AFP-fréttastofan greinir frá.
Mikil virkni hefur verið í fjallinu síðan í ágúst og stöðugir smærri jarðskjálftar hafa mælst. Skjálftunum hefur nú fækkað en þeir orðið dýpri og öflugri. Hæsta viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir á svæðinu vegna ástandsins.
Rýmingarferlið stendur enn yfir og gert er ráð fyrir að enn fleiri muni flýja af svæðinu á næstu klukkutímum. Fólk er hvatt til að vera í að minnsta kosti níu kílómetra fjarlægð frá fjallinu, sem er staðsett í um 75 kílómetra fjarlægð frá ferðamannastaðnum Kuta.
Yfir þúsund manns létust þegar Mount Agung gaus síðast árið 1963.