Ætla að berjast gegn „innrás útlendinga“

Alexander Gauland sagði á fundi með fréttamönnum að AfD hefði …
Alexander Gauland sagði á fundi með fréttamönnum að AfD hefði verið kjörið til að taka á málefnum innflytjenda „án málamiðlana“. AFP

Hægri öfgaflokkurinn AfD, sem fékk menn kjörna á þýska sambandsþingið í kosningunum í gær, hefur heitið því að berjast gegn „innrás útlendinga“.

„Við viljum breytta stefnu,“ hefur BBC eftir Alexander Gauland einum stjórnenda flokksins. Klofnings virðist þó strax verið farið að gæta milli leiðtoga flokksins um það hvert skuli stefna.

Angela Merkel náði kjöri sem kanslari Þýslands fjórða kjörtímabilið í röð, en flokkur hennar Kristilegir demókratar (CDU) fékk engu að síður sína verstu útreið í tæp 70 ár. Merkel hefur þegar hafist handa við að mynda nýja samsteypustjórn.

Núverandi samstarfsflokkur CDU, Sósíalistaflokkurinn, mun verða í stjórnarandstöðu þetta kjörtímabil eftir að hafa fengið sögulega lélega kosningu.

Velgengni AfD hefur hrist upp í hefðbundnu stjórnmálaflokkunum og mótmæli hafa þegar verið haldin gegn AfD í nokkrum borgum landsins eftir að kosningaúrslitin lágu fyrir.

„Ein milljón manns, útlendingar sem hafa komið til þessa lands, eru að taka hluta þess í burtu og það viljum við í AfD ekki,“ sagði Gauland á fundi með fréttamönnum.

„Við viljum ekki missa Þýskaland fyrir innrás útlendinga úr öðrum menningarheimum. Þetta er mjög einfalt.“

Petry ætlar ekki á þing fyrir AfD

Búist er við að AfD fái 94 af 709 þingsætum á sambandþinginu og verði þriðji stærsti flokkurinn. AfD var að sögn Gauland kjörið til að þess að taka á málefnum innflytjenda „án málamiðlana“.

Nokkurrar misklíðar virðist þó þegar gæta innan flokksins, því annar leiðtogi hans Frauke Petry, lýsti yfir á sama fréttamannafundi að hún muni ekki setjast á þing fyrir AfD þrátt fyrir að hafa náð kjöri.

Sagði Petry, sem er einn þekktasti leiðtogi AfD, að menn væru „ósammála um innihaldið“, en hún hafði áður gagnrýnt Gauland fyrir að segja að AfD myndi ofsækja Merkel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert