Weiner fékk 21 mánaðar dóm fyrir klúr smáskilaboð

Anthony Weiner yfirgefur dómsal í New York eftir að hann …
Anthony Weiner yfirgefur dómsal í New York eftir að hann var dæmdur í 21 mánaða fangelsi fyrir að senda 15 ára stúlku klúr smáskilaboð. AFP

Anthony Weiner, sem sat á Bandaríkjaþingi í 12 ár, var í dag dæmdur í 21 mánaðar fangelsi fyrir að senda kynferðisleg smáskilaboð til 15 ára stúlku. Mál Weiners var eitt hneykslismálanna sem settu svip sinn á bandarísku forsetakosningarnar á síðasta ári.

Reuters segir Weiner hafa brostið í grát þegar dómurinn yfir honum var lesinn upp. Hann lýsti sig sekan í maí á þessu ári um að hafa sent klúr skilaboð til stúlku undir lögaldri og samþykkti við sama tækifæri að andmæla ekki fangelsisdómi sem yrði styttri en 27 mánuðir.

Lögfræðingar Weiners höfðu farið fram á að hann fengi skilorðsbundinn dóm og sögðu skilaboðin eiga rætur sínar djúpt í veikindum sem Weiner fengi nú meðferð við.

Rannsókn lögreglu á samskiptum Weiners við skólastúlku kom fram í kastljósið á lokadögum kosningabaráttunnar, þegar yfirvöld fundu tölvupósta á fartölvu Weiners frá eiginkonu hans Humu Abedin, en Abedin var meðal aðstoðarmanna Hillary Clinton í kosningabaráttunni. Abedin hefur nú farið fram á skilnað frá Weiner.

Uppgötvun tölvupóstanna leiddi þáverandi yfirmann bandarísku alríkislögreglunnar FBI, James Comey, til að tilkynna að FBI myndi taka að nýju upp rannsókn sína á notkun Clinton á einkanetfangi sínu í tíð sinni sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Clinton hefur síðar sagt að sú yfirlýsing Comey hafi átt sinn þátt í því að hún tapaði fyrir Donald Trump, sem hafði sakað hana um að stofna þjóðaröryggi Bandaríkjanna í hættu með því að nota eigin netfang.

Weiner satt í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir New Yorkborg í 12 ár, eða allt til ársins 2011 er hann sagði af sér eftir að í ljós kom að hann hafði sent kynferðisleg skilaboð til fullorðinna kvenna.

Hann bauð sig svo fram til borgarstjóra New York 2013, en hætti við framboðið eftir að fleiri klúr skilaboð komu fram í dagsljósið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert