NFL: „Tíkarsynirnir“ gegn Trump

Það var Colin Kaepernick, liðstjórnandi San Francisco 49ers, sem kom …
Það var Colin Kaepernick, liðstjórnandi San Francisco 49ers, sem kom mótmælaöldunni af stað. Kaepernick er fyrir miðju á myndinni. AFP

„Ég ætla ekki að standa upp til að sýna stolt gagnvart fána lands sem kúgar svarta og litað fólk. Fyrir mér er þetta stærra en fótboltinn og það væri sjálfselskt af mér að líta undan. Það liggja lík í götunni og fólk er að fara í launað leyfi og komast upp með morð.“

Með þessum orðum Colin Kaepernick, leikstjórnanda San Francisco 49ers, fór af stað mótmælaalda meðal leikmanna bandarísku NFL-deildarinnar og fleiri íþróttamanna, sem hefur stigmagnast síðustu viku og sér ekki fyrir endann á. Ummælin lét Kaepernick falla í ágúst í fyrra en nýverið blandaði Donald Trump Bandaríkjaforseti sér í umræðuna, skaut föstum skotum að deildinni og hvatti m.a. til þess að þeir leikmenn sem ekki stæðu undir þjóðsöngnum yrðu umsvifalaust látnir fjúka.

#TakeTheKnee á Twitter.

 

Hinn 28 ára Kaepernick, sem var ættleiddur af hvítri fjölskyldu, var ekki fyrsti þekkti íþróttamaðurinn til að vekja athygli á stöðu minnihlutahópa í Bandaríkjunum og fetaði m.a. í fótspor NBA-leikmanna á borð við LeBron James og Dwayne Wade. Hann sagðist hins vegar gera sér grein fyrir því að þessi gjörningur hans myndi mögulega vekja mikla reiði, t.d. innan félagsins og meðal stuðningsmanna þess, og sagðist einn bera ábyrgð á gjörðum sínum.

Mótmæli Kaepernick beindust fyrst og fremst gegn lögregluofbeldi gegn svörtum. …
Mótmæli Kaepernick beindust fyrst og fremst gegn lögregluofbeldi gegn svörtum. Í dag snúast þau ekki síður um samstöðu innan NFL-deildarinnar og rétt leikmanna til að tjá sig innan vallar og utan. AFP

„Þetta er ekki eitthvað sem ég er að fara að bera undir einhvern,“ sagði Kaepernick, sem átti þá þegar í stirðu sambandi við yfirstjórn 49ers. „Ég er ekki að leita samþykkis. Ég verð að standa í fæturna fyrir þá sem eru kúgaðir. Ef þeir taka fótboltann af mér, auglýsingasamningana.. veit ég að ég stóð fyrir það sem er rétt.“

Stjórnendur 49ers sendu frá sér tilkynningu í kjölfarið og sögðust virða rétt einstaklingsins til að velja að taka þátt, eða ekki, í því að hylla bandaríska fánann. Valið byggði á bandarískum gildum á borð við tjáningarfrelsið og trúfrelsið. Þá sendu stjórnendur NFL-deildarinnar frá sér tilkynningu þar sem sagði að leikmenn væru hvattir til að standa undir þjóðsöngnum en ekki tilneyddir.

Eins og eldur í sinu

Í síðasta leik 49ers fyrir upphaf NFL-leiktíðarinnar kraup Kaepernick á hné í stað þess að sitja og sagði um að ræða málamiðlun í virðingarskyni við bandaríska hermenn. Fjölmargir aðdáendur púuðu á leikstjórnandann, sem sagði reiðina á misskilningi byggða; hann elskaði Bandaríkin og hygðist gefa milljón dala af tekjum sínum til þeirra málefna sem honum var umhugað um.

Pete Carroll, þjálfari Seattle Seahawks, sagðist styðja ákvörðun bakvarðarins Jeremy …
Pete Carroll, þjálfari Seattle Seahawks, sagðist styðja ákvörðun bakvarðarins Jeremy Lane um að taka þátt í mótmælum Kaepernick. NFL-liðin hafa almennt staðið við bakið á leikmönnunum. Wikipedia/Anthony Quintano

Um viku síðar tilkynntu stjórnendur 49ers að þeir ætluðu að jafna framlag Kaepernick en þá höfðu bæði Jeremy Lane, bakvörður hjá Seattle Seahawks, og Brandon Marshall, varnarmaður hjá Denver Broncos, neitað að standa undir þjóðsöngnum. Pete Carroll, þjálfari Seahawks, sagðist styðja ákvörðun Lane og þá sendu stjórnendur Broncos frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðust virða það að um væri að ræða persónulega ákvörðun hvers og eins.

Mótmælin héldu áfram og breiddust út til annara liða. Hinn 11. September 2016 hóf Marcus Peters, bakvörður hjá Kansas City Chiefs, krepptan hnefa á loft undir þjóðsöngnum á meðan aðrir leikmenn kræktu örmum saman. „Ég hylli Colin fyrir það sem hann er að gera fyrir góðan málstað,“ sagði Peters í samtali við ESPN. „Ég styð hann 100%. Það sem er að gerast hjá löggæsluyfirvöldum þarf að breytast og það þarf að breytast fyrir alla, ekki bara svarta Bandaríkjamenn,“ sagði hann.

Sama dag, fyrir leik gegn Miami Dolphins, héldust allir leikmenn Seattle Seahawks í arma, sem útherjinn Doug Baldwin sagði til marks um samheldni leikmanna NFL. Fjórir leikmenn Miami; Arian Foster, Kenny Stills, Michael Thomas og Jelani Jenkins, krupu á kné. Líkt og stjórnendur annarra félaga sögðust stjórnendur Miami hvetja leikmenn til að standa undir þjóðsöngnum en jafnframt virða rétt þeirra til að gera það ekki.

Trump: „Tíkarsynina“ af vellinum!

Þegar styttist í leiktíðina 2017 lét Michael Bennett, varnarmaður hjá Seattle Seahawks, að umræðan um svokölluð „þjóðsöngsmótmæli“ myndi breytast ef hvítir leikmenn létu einnig til sín taka. „Þegar einhver kemur að málum sem þarf ekki að taka þátt í samtalinu og gerir sig berskjaldaðan gagnvart því.. Þegar það gerist þá held ég að eitthvað muni gerast,“ sagði Bennett.

Michael Bennett, varnarmaður Seattle Seahawks, var meðal þeirra sem tók …
Michael Bennett, varnarmaður Seattle Seahawks, var meðal þeirra sem tók þátt í mótmælum Kaepernick leiktíðina 2016. AFP

Bennett reyndist sannspár. Í ágúst sl. Tók Chris Long, varnarmaður hjá Philadelphia Eagles, utan um liðsfélaga sinn Malcolm Jenkins þegar síðarnefndi hóf hnefann á loft og viku síðar kraup Seth DeValve, innherji hjá Cleveland Browns, á kné undir þjóðsöngnum, fyrstur hvítra leikmanna. Um tugur leikmanna liðsins kraup en þeir sem stóðu sýndu stuðning sinn með því að hvíla hendur sínar á öxlum hinna. Viðbrögð stjórnenda Cleveland; við virðum þjóðsönginn og hermennina okkar en einnig tjáningarfrelsið.

Seth DeValve hjá Cleveland Browns var fyrsti hvíti leikmaðurinn til …
Seth DeValve hjá Cleveland Browns var fyrsti hvíti leikmaðurinn til að taka þátt og krjúpa á kné undir þjóðsöngnum. AFP

Ómögulegt er að segja hvort það var þátttaka hvítu leikmannanna sem skipti sköpum en skömmu síðar, í síðustu viku, náðu mótmælin athygli valdamesta hvíta manns landsins. Á pólitískum fjöldafundi í Huntsville í Alabama sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti að mótmælin væru að eyðileggja bandarískan fótbolta og hvatti eigendur NFL-liðanna til að láta leikmenn umsvifalaust fjúka ef þeir „vanvirtu fánann“.

„Myndir þú ekki vilja sjá einn þessara NFL-eigenda, þegar einhver vanvirðir fánann okkar, segja: Komið þessum tíkarsyni af vellinum. Hann er rekinn. Hann er rekinn!“ sagði forsetinn.

Stjórnendur NFL-deildarinnar svöruðu með yfirlýsingu frá framkvæmdastjóranum Roger Goodell. Hann sagði deildina og leikmennina upp á sitt besta þegar þeir sköpuðu samstöðu í samfélaginu; viðbrögð þeirra við náttúruhamförum síðustu vikna væru gott dæmi. Goodell sagði ummæli forsetans til þess gerð að skapa sundrung og þá lýstu þau virðingarleysi í garð NFL-deildarinnar og leikmanna hennar.

Mjög skiptar skoðanir eru meðal aðdáenda íþróttarinnar á mótmælum leikmanna. …
Mjög skiptar skoðanir eru meðal aðdáenda íþróttarinnar á mótmælum leikmanna. Sumir segjast styðja þau 100% á meðan aðrir segja þau lítilsvirðingu við bandaríska fánann og fórnir bandarískra hermanna. AFP

Sameinaðir gegn forsetanum

En í stað þess að sundra virtust orð Trump sameina. Þannig tók fjöldi eigenda undir með Goodell um helgina.

John Mara og Steve Tisch, eigendur New York Giants, sögðu ummæli forsetans „óviðeigandi“ og „móðgandi“ en Jed York hjá 49ers kallaði þau „kaldlynd“ og sagði þau í mótsögn við það sem Bandaríkin stæðu fyrir.

Stephen Ross, eigandi Miami Dolphins, sagði þá leikmenn sem tekið höfðu þátt í mótmælunum skynsama unga menn sem vildu ekkert annað en að betrumbæta heiminn.

„Þeir vildu hefja samtal og eru að hafa áhrif í samfélaginu, þ. á m. vinna með löggæsluyfirvöldum til að sætta sjónarmið. Við getum öll haft ávinning af því að læra, hlusta og virða hvort annað,“ sagði Ross.

Framkvæmdastjóri leikmannasamtaka NFL, DeMaurice Smith, sendi einnig frá sér tilkynningu og sagði samtökin aldrei myndu gefa eftir í baráttunni fyrir stjórnarskrárvörðum réttindum leikmanna né öryggi þeirra. „Enginn maður eða kona ætti nokkurn tímann að þurfa að velja sér starf sem skilyrðir hann til að gefa upp rétt sinn.“

Fyrir leikina í þriðju umferð sem fram fór í gær varð síðan mótmæla vart hjá öllum þeim 28 liðum sem öttu kappi. Fjölmargir leikmenn New England Patriots, Jacksonville Jaguars, Cleveland Browns, Denver Broncos og Miami Dolphins krupu á kné undir þjóðsöngnum. Í Lundúnum, þar sem Jaguars spiluðu við Baltimor Ravens, stóðu margir leikmannanna undir breska þjóðsöngnum en fóru niður á hné fyrir þann bandaríska.

Myndaröð CNN frá mótmælum sunnudagsins.

Lið Pittsburgh Steelers,  utan eins leikmanns, fór ekki út á völlinn fyrr en þjóðsöngurinn hafði verið sunginn, sama átti við um lið Seattle Seahawks og Tennessee Titans. Fyrir leik Detroit Lions og Atlanta Falcons lauk söngvarinn Rico Lavelle við söng sinn með því að krjúpa á kné og hefja krepptan hnefa á loft.

Sér ekki fyrir endann á umræðunni

Inngrip Bandaríkjaforseta hafði þannig þveröfug áhrif. Mótmælin breiddu úr sér og Bruce Maxwell, leikmaður Oakland Athletics, varð fyrsti leikmaður MLB-deildarinnar í hafnabolta til að krjúpa á kné undir þjóðsöngnum. Þá kræktu leikmenn Minnesota Lynx örmum saman fyrir leik í WNBA á meðan andstæðingar þeirra í LA Sparks létu sig hreinlega vanta á völlinn á meðan þjóðsöngurinn hljómaði.

Á tónlistarhátíð í New York fór tónlistarmaðurinn Steve Wonder á hnén „fyrir Bandaríkin“.

Robert Kraft, vinur Trump og eigandi New England Patriots, sem gaf forsetanum Super Bowl-hring fyrir stuttu, lýsti miklum vonbrigðum með „tón“ forsetans.

Forsetinn lét sér hins vegar ekki segjast og hélt áfram að skjóta á íþróttina og leikmenn um helgina og í dag:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert