Yfirgnæfandi líkur á eldgosi á Balí

Eldfjallið Agung, sem margir íbúar á Balí líta á sem …
Eldfjallið Agung, sem margir íbúar á Balí líta á sem „hið heilaga fjall“. AFP

Yfirvöld í Indónesíu hafa lýst yfir hæsta mögulega viðbúnaðarstigi vegna yfirvofandi eldgoss í fjallinu Agung.

Yfir 75 þúsund íbúar í nágrenni fjallsins hafa verið fluttir á brott af heimilum sínum, en talan hefur hækkað ansi hratt síðustu daga.  

BBC hefur eftir upp­lýs­inga­full­trúa al­manna­varna á eyj­unni, Sutopo Purwo Nugroho, að eldfjallavirkni mælist sífellt meiri og yfir 560 minni skjálftar mældust í nágrenni fjallsins í gær. „Það eru yfirgnæfandi líkur á eldgosi, en ómögulegt er að segja til um hvenær fjallið muni gjósa,“ segir Nugroho.

Fólk er hvatt til að vera í að minnsta kosti 12 kíló­metra fjar­lægð frá fjall­inu, sem er staðsett í um 75 kíló­metra fjar­lægð frá ferðamannastaðnum Kuta. Viðbúnaður­inn hef­ur enn sem komið er ekki haft nein áhrif á helstu ferðamannastaði eða flug­sam­göng­ur við indó­nes­ísku eyj­una.

Balí hefur notið aukinna vinsælda sem viðkomustaður íslenskra ferðamanna á síðastliðnum árum og eru þó nokkrir Íslendingar staddir þar nú. Einn þeirra er Vilborg Halldórsdóttir fararstjóri, en hún segir fólk hins vegar taka lífinu með ró, enda sé það í öruggri fjarlægð frá fjallinu, enn sem komið er.

Frétt mbl.is: „Við erum sultuslök“

Yfir þúsund manns lét­ust þegar Mount Ag­ung gaus síðast árið 1963. Þegar fjallið gýs telja margir íbúar á Balí að guðirnir séu reiðir, en almennt er talað um Agung sem hið heilaga fjall og finna má fjölmargar bænastyttur á fjallinu.

Bænastyttur eru algeng sjón á eldfjallinu Agung. Þegar fjallið gýs …
Bænastyttur eru algeng sjón á eldfjallinu Agung. Þegar fjallið gýs telja margir íbúar eyjunnar það tákna reiði guðanna. Ljósmynd/Vilborg Halldórsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert