Allir 11.000 íbúar eyjunnar Ambae í eyríkinu Vanuatu hafa verið fluttir á brott af heimilum sínum vegna eldgoss í eldfjallinu Manaro Voui.
Miklar drunur hafa borist frá fjallinu síðustu daga sem hóf svo að gjósa um helgina. Gosinu fylgir þónokkur aska.
6.000 íbúar Ambae höfðu verið fluttir í öruggt skjól annars staðar á eyjunni fyrr í vikunni, en nú hafa yfirvöld hafist handa við að koma öllum íbúunum á nærliggjandi eyjar. Búist er við að því verði lokið á morgun.
Þetta er í fyrsta sinn sem allir íbúar eyjunnar þurfa að yfirgefa hana vegna náttúruhamfara, sem eru þó alls ekki sjaldgæf á þessu svæði. Vanuatu situr á „Kyrrahafs-eldhringnum“, svæði þar sem jarðskjálftar og eldgos eru tíð vegna hreyfinga á flekamótum.
Manaro Voui gaus síðast árið 2005. Þá þurftu um 5.000 manns að yfirgefa heimili sín.
Miklar jarðhræringar eru á eldhringnum í Kyrrahafi þessa stundina. Eldfjallið Agung á Balí byrjaði að láta á sér kræla í ágúst og hafa tíðir jarðskjálftar mælst síðan þá. Yfirvöld í Indónesíu hafa lýst yfir hæsta mögulega viðbúnaðarstigi vegna yfirvofandi eldgoss í fjallinu.