Hvers vegna?

AFP

Hvers vegna? Spurning sem margir velta fyrir sér í kjölfar skotárásarinnar í Las Vegas fyrir sólarhring. Ekki bara almenningur heldur einnig lögreglan sem leitar í örvæntingu eftir skýringu á því hvers vegna Stephen Craig Paddock, 64 ára, ákveður að skjóta á allt sem fyrir verður. 

Að minnsta kosti 59 létust og yfir 500 eru særðir eftir að Paddock lét byssukúlum rigna yfir gesti tónlistarhátíðar úr herbergi á 32. hæð Mandalay Bey-hótelsins. Alls voru 22 þúsund gestir á tónlistarhátíðinni. 

Aldrei áður hafa jafn margir látist í skotárás í Bandaríkjunum og voru vígasamtökin Ríki íslams fljót til þess að lýsa ábyrgð á hendur sér. Á fréttasíðu þeirra birtist tilkynning um að Paddock hafi framið ódæðið í nafni vígasamtakanna. En ekkert hefur enn fundist sem tengir hann við vígasamtökin eða önnur þekkt vígasamtök í heiminum. 

Að sögn lögreglu braut Paddock, sem ekki er á sakaskrá og hefur aðeins komist í kast við lögin fyrir brot á umferðarlögum, rúðu í hótelherberginu upp úr klukkan 22 á sunnudagskvöldið og hóf skothríð á þúsundir gesta tónlistarhátíðarinnar fyrir utan hótelið. 

Stephen Paddock.
Stephen Paddock. AFP

„Geðsjúkur einfari“

Í myndskeiði af fjöldamorðinu sem birt var á CNN heyrist skothríðin, fólk öskrandi þar sem það reyndi að komast í skjól. Í fyrstu var ekkert vitað hvaðan skothríðin kom. 

„Við sáum fólk falla, Við vissum ekki einu sinni hvort það hafði dottið eða verið skotið,“ segir Ralph Rodriguez sem var á tónleikunum með vinum sínum. „Fólk greip í ástvini sína og jafnvel ókunnuga til þess að reyna að aðstoða fólk við að komast í burtu.“

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) segir að ekkert hafi fundist sem tengi Paddock við Ríki íslams og lögreglustjórinn í bænum sem Paddock bjó lýsir honum sem geðsjúkum einfara.

23 byssur á hótelherberginu og 19 á heimilinu

Lögreglustjórinn í Las Vegas, Joseph Lombardo, segir að Paddock hafi skotið í gegnum hurð hótelherbergisins og hæft öryggisvörð í fótlegginn. Þegar sérsveitarmenn komu inn í herbergið, þar sem Paddock hafði dvalið frá 28. september, fannst hann látinn í herberginu eftir að hafa skotið sig til bana. Alls fundust 23 skotvopn í herberginu.

Heimili Stephen Paddock.
Heimili Stephen Paddock. AFP

Við húsleit á heimili Paddock í bænum Mesquite í Nevada-ríki, sem er í 130 km fjarlægð frá Las Vegas, fundust 19 skotvopn til viðbótar, sprengiefni og þúsundir skota. 

Lombardo segir að við rannsóknina hafi einnig fundist nokkuð magn sprengiefnis sem nefnist tannerite á heimili Paddock í Mesquite sem og fleiri tegundir efna sem eru notuð við sprengjugerð. 

Að sögn Lombardo liggur ekki fyrir hvers vegna Paddock framdi ódæðið. „Við eltumst við hverja einustu vísbendingu sem við finnum úr lífi hans,“ sagði Lombardo á blaðamannafundi í nótt. Engin stefnuyfirlýsing hefur fundist né nokkuð annað sem geti skýrt gjörðir Paddocks. 

Um einfara sé að ræða og óvíst hvort hægt hafi verið að koma í veg fyrir árásina. Lombardo segir að sér hafi ekki enn tekist að ímynda sér hvað fékk manninn til þess að gera það sem hann gerði.

Umræðan um herta byssulöggjöf í Bandaríkjunum hófst fljótlega eftir árásina en Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sem segir ódæðið hreina illsku, reyndi strax að þagga þá umræðu niður. 

„Ástæðan er ekki fundin og það er ótímabært að ræða stefnu á meðan við vitum ekki allar staðreyndir eða hvað gerðist í gærkvöldi,“ sagði talskona Trump, Sarah Sanders við fréttamenn.

Lombardo segir að Paddock hafi notað einhvers konar hamar til þess að brjóta rúðuna á hótelherberginu áður en hann hóf skothríð á tónleikagesti.

Ríki íslams lýsir Paddock sem hermanni kalífa-dæmisins og segir að hann hafi snúist til íslam fyrir nokkrum mánuðum og hjá samtökunum hafi hann gengið undir heitinu Abu Abdel Bar al-Amriki - Ameríkaninn. Engin gögn voru lögð fram sem staðfesta þessar staðhæfingar Ríkis íslms, samkvæmt upplýsingum frá FBI.

Aaron Rouse, sérfræðingur hjá FBI, segir ekkert enn hafa komið fram sem bendir til þess að þetta sé rétt. Talsmaður bandarísku leyniþjónustunnar (CIA), Jonathan Liu, segir að leyniþjónustustofnanir viti af yfirlýsingum hryðjuverkasamtakanna en ekki sé tímabært að taka mark á þeim. 

Sendi mömmu smákökur

Bróðir Paddock segir að hann hafi verið spilafíkill og að faðir þeirra hafi verið bankaræningi sem var eitt sinn á lista FBI yfir glæpamenn sem leitað var en hann flúði meðal annars einu sinni úr fangelsi. Samkvæmt auglýsingu FBI frá árinu 1969 er föður þeirra, Patrick Benjamin lýst sem geðsjúklingi.

En Eric Paddock segir að bróðir hans hafi að öðru leyti lifað eðlilegu lífi og verið mikill mömmustrákur. „Hann hafði gaman af því að spila póker á netinu. hann fór í siglingar og sendi mömmu smákökur,“ segir Eric Paddock. „Við erum að reyna að skilja hvað gerðist. En við vitum ekki neitt.“

Paddock hafði aldrei afskipti af trúmálum né stjórnmálum. Hann var ekki einu sinni mikill aðdáandi vopna, bætir bróðir fjöldamorðingjans við.

Annar bróðir Steven Paddock, Bruce Paddock, segir í samtali við NBC að bróðir hans hafi verið umsvifamikill fjárfestir og milljarðamæringur. Helst fjárfesti hann í fasteignum.

Paddock flutti í hús sitt í Mesquite frá Reno í júní í fyrra og bjó þar með unnustu sinni,  Marilou Danley, 62 ára. Ekkert bendir til þess að hún hafi átt aðild að ódæðinu en hún er í Japan um þessar mundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert