„Það var allt út í blóði“

AFP

„Þegar ég vaknaði í morgun leið mér eins og öll þessi atburðarás hefði verið vondur draumur,“ segir Sylvía Erla Melsted söngkona, en hún varð vitni að því þegar byssumaður hóf skothríð frá Mandalay Bay-hótelinu í Las Vegas í gær og skaut á tónleikagesti kántrítónlistarhátíðar við hlið hótelsins.

„Ég á erfitt með að orða tilfinningar mínar á þessum tímapunkti. Þetta virðist allt svo óraunverulegt, svo fjarstæðukennt þeim veruleika sem við búum við á Íslandi. Hvernig lýsir maður svona fyrir fólki sem hefur ekki upplifað það að hlaupa undan byssukúlum?“

Sylvía var ásamt kærasta sínum í móttöku hótels beint á móti Mandalay Bay þegar skotárás frá hinu síðarnefndar hóteli hófst en á milli hótelanna er tónlistarsvæðið sem skothríðinni var að mestu beint að.

Sylvía Erla Melsted söngkona
Sylvía Erla Melsted söngkona

„Í upphafi vissum við ekki hvað var að gerast en við sáum um tuttugu manns koma hlaupandi inn í anddyrið á okkar hóteli. Mér datt fyrst í hug að fólkið væri að eltast við einhvern frægan einstakling en síðan fór fólk að hlaupa í allar áttir og öskra. Þá var okkur sagt að úti væri fjöldi fólks með byssur að skjóta. Það var algjör glundroði og við vissum í raun ekkert hvað var að eiga sér stað,“ segir hún.

Viðvörunarbjöllur hótelsins fóru á þessum tíma í gang að sögn Sylvíu og fólk var grátandi, öskrandi og hlaupandi um allt. Glundroðinn var algjör.

„Fólk var að hlaupa til að lifa af og við hlupum en vissum ekki hvað var nákvæmlega að eiga sér stað. Okkur var t.d. sagt að hlaupa út af hótelinu því einhver hélt að skotárásin ætti sér stað inni á hótelinu okkar.“

Eins og vígvöllur

Sylvía leitaði skjóls ásamt öðrum gestum hótelsins í kjallara þess þar sem aðstaða starfsfólks er til húsa og segir hún biðina hafa verið erfiða. Einhver skot hafi drifið inn á hótelið sem hún dvelur á og fólk átt erfitt með að átta sig á því hvar skotmaðurinn var staðsettur.

„Við vorum í kjallara hótelsins í nokkurn tíma áður en hægt var að fara upp aftur. Þá blasti við okkur hálfgerður vígvöllur. Það var allt út í blóði enda hafði sært fólk flúið inn á hótelið,“ segir hún og bætir við að hugur hennar og allra sem komust af sé hjá fórnarlömbum þessa hræðilega atburðar.

„Þetta var hryllilegt. Mér líður eins og ég hafi verið dregin inn í bíómynd. Allt þetta fólk sem lá í valnum, það er stingur í hjartanu að hugsa til alls þessa ofbeldis.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert