Kærastan hafði ekki hugmynd um árásina

Paddock hóf skothríðina frá 32. hæð Mandalay Bay-hótelsins í Las …
Paddock hóf skothríðina frá 32. hæð Mandalay Bay-hótelsins í Las Vegas. AFP

Marilou Danley, kærasta Stephens Paddock sem skaut 58 til bana í Las Vegas, hafði ekki hugmynd um að hann ætlaði að fremja ódæðið. 

„Ég þekkti Stephen Paddock sem góðan, umhyggjusaman og hæglátan mann,“ sagði Marilou Danely í yfirlýsingu sem lögmaður hennar las upp. „Ég elskaði hann og vonaðist eftir því að eiga rólega framtíð með honum.“

Marilou Danley.
Marilou Danley. AFP

„Hann sagði aldrei neitt við mig eða gerði eitthvað sem fékk mig til að halda að eitthvað eins hræðilegt og þetta myndi nokkru sinni gerast,“ bætti hún við.

Paddock lagði 100 þúsund Banda­ríkja­dali, 10,6 millj­ón­ir króna, inn á reikn­ing henn­ar áður en hann framdi ódæðið.

Danley bætti við að fyrir tveimur vikum hafi Paddock sagt henni að hann hefði fundið ódýrt flugfar fyrir hana til að hún gæti heimsótt fjölskyldu sína á Filippseyjum.

„Eins og allir Filippseyingar sem búa ekki í heimalandinu var ég spennt að fara heim og hitta fjölskyldu mína og vini,“ sagði í yfirlýsingunni. „Þegar ég var þar millifærði hann peninga á mig sem hann sagði að ég ætti að nota til að kaupa hús handa mér og fjölskyldu minni.“

Stephen Paddock.
Stephen Paddock. AFP

Þá sagðist hún hafa óttast að hann vildi hætta með sér. „Það hvarflaði aldrei að mér á nokkrurn hátt að hann ætlaði að grípa til ofbeldis gagnvart nokkurri manneskju.“

Hún bætti við að hún væri eyðilögð vegna árásarinnar á sunnudag, sem er sú versta af þessum toga í sögu Bandaríkjanna.

Hún sagði að hún biðji fyrir fórnarlömbunum. „Ég er móðir og amma og mér líður hræðilega vegna fólksins sem hefur misst ástvini sína.“

Fram kom líka að hún hafi sjálfviljug flogið aftur til Los Angeles og bætti hún við að hún aðstoði bandarísku alríkislögregluna, FBI, við rannsókn málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert