Unnusta Stephen Paddock, sem skaut 58 til bana í Las Vegas, Marilou Danley, kom til Bandaríkjanna í nótt frá Filippseyjum. Paddock lagði 100 þúsund Bandaríkjadali, 10,6 milljónir króna, inn á reikning hennar áður en hann framdi ódæðið.
Marilou Danley kom til Los Angels frá Manila í nótt, að sögn talskonu innflytjendaeftirlits Bandaríkjanna, Maria Antoinette Mangrobang.
Lögregluyfirvöld á Filippseyjum (NBI) segja að bandaríska alríkislögreglan (FBI) hafi óskað eftir aðstoð þeirra til þess að hafa upp á Danley.
Talsmaður NBI, Nick Suarez, segir að Danley hafi komið til Filippseyja í síðasta mánuði og Paddock hafi síðan lagt inn á reikning hennar 100 þúsund dali. Suarez segir að FBI hafi viljað ná tali af Danley en gruni hana ekki um aðild að árásinni.
Paddock, 64 ára gamall fjárhættuspilari og endurskoðandi á eftirlaunum, skaut 58 til bana og særði að minnsta kosti 527 þegar hann lét byssukúlum rigna yfir gesti á tónleikum úr hótelherbergi sínu á sunnudagskvöldið, snemma á mánudagsmorgni að íslenskum tíma. Áður var talað um 59 fórnarlömb en inni í þeirri tölu var árásarmaðurinn sjálfur en hann framdi sjálfsvíg í hótelherberginu.
Danley er 62 ára gömul og ástralskur ríkisborgari sem flutti til Bandaríkjanna fyrir 20 árum til þess að starfa í spilavíti. Utanríkisráðherra Ástralíu, Julie Bishop, segir að allt bendi til þess að persónulegar upplýsingar hennar hafi verið notaðar til þess að bóka hótelberbergið. Fréttir herma að Danley sé fædd á Filippseyjum en það hefur ekki fengist staðfest að yfirvöldum þar.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst Paddock sem sjúkum og vitstola manni en BBC hefur eftir háttsettum einstakling í heimavarnarráðuneytinu að engin gögn hafi komið fram sem bendi til þess að Paddock hafi glímt við andleg veikindi eða heilaskaða. Né heldur hafa fundist tengsl við hryðjuverkasamtök. Paddock var ekki á sakaskrá heldur.
Í hótelbergi Paddocks fundust 23 byssur auk fleiri vopna og sprengiefni á heimili hans. Alls hafa fundist 47 skotvopn tengd honum á þremur stöðum.
Lögreglan hefur birt myndskeið af árásinni.
Stephen Paddock hafði komið fyrir nokkrum myndavélum bæði í hótelberberginu og í kringum það. Tvær myndavélar voru í ganginum og ein í gægjugati hurðarinnar. Þannig gat hann séð ef lögregla eða öryggisverðir nálguðust herbergið, að sögn lögreglu. Enn er verið að reyna að átta sig á því hvað varð til þess að Paddock ákvað að fremja árásina. Eitt er ljóst að árásin var þaulskipulögð.