Blóðbaðið tók tíu mínútur

Stephen Craig Paddock virtist vera ósköp venjulegur maður sem hafði áhuga á að kaupa sér hús þegar hann heimsótti fasteignasölu árið 2014 og keypti sér hús á tæplega 370 þúsund Bandaríkjadali í reiðufé. Þremur árum síðar skaut hann 58 manns til bana og særði um 500 í blóðbaði sem tók tíu mínútur. 

Enn virðist fátt vera vitað um hvers vegna Paddock ákvað að gera árásina og unnusta hans hefur bætt litlu þar við. Hún vissi ekki neitt.

Mandalay Bay hótelið og spilavítið þar sem Paddock framdi árásina.
Mandalay Bay hótelið og spilavítið þar sem Paddock framdi árásina. AFP

Á sunnudagskvöldið braut Paddock rúðuna á hótelherbergi sínu og lét byssukúlum rigna yfir gesti á tónlistarhátíð fyrir utan hótelið í Las Vegas.

Klukkan 22:05 hóf Stephen Paddock skothríðina

Klukkan 22:12  komu tveir lögreglumenn á 31. hæð Mandalay Bay hótelsins og segja að skothríðin komi af hæðinni fyrir ofan þá.

Klukkan 22:15 er síðasta skotinu skotið.

Klukkan 22:17 koma lögreglumenn inn á 32. hæðina þaðan sem Paddock gerði árásina.

Klukkan 22:18 segir öryggisvörður að hann hafi orðið fyrir skoti og greinir lögreglu frá því í hvaða herbergi árásarmaðurinn sé. Yfir 200 skotum var skotið úr herberginu fram á gang.

Klukkan 22:26-22:30 koma átta lögreglumenn til viðbótar á 32. hæð hótelsins og rýma öll herbergin á hæðinni og leita að særðu fólki.

Klukkan 23:20 notar lögreglan sprengiefni til þess að brjótast inn í herbergi Paddocks sem var svíta. Þeir finna hann liggjandi á gólfinu og sjá að baðherbergið er læst.

Klukkan 23.27 brjóta lögreglumenn baðherbergishurðina og sjá að þar er enginn.

Tímalína árásarinnar.
Tímalína árásarinnar. AFP

Enginn vissi neitt

Þrátt fyrir að vígasamtökin Ríki íslams hafi lýst ábyrgð á hendur sér er ekkert sem tengir Paddock við samtökin né heldur önnur þekkt hryðjuverkasamtök. Árásin hefur greinilega verið í undirbúningi lengi en samt sem áður vissi unnusta hans, Marilou Danley, ekki neitt.

Samkvæmt fréttum CNN lagði Paddock mikla áherslu á að fá næði og vakti fyrir það athygli nágranna. Hann í rauninni girti heimili sitt af svo ekki væri mögulegt fyrir nágrannana að fylgjast með honum. 

Skýringin sem Paddock gaf var sú að hann vildi ekki horfa á annað fólk og hann vildi ekki að annað fólk fylgdist með honum. Skipti þar engu að með þessu missti hann allt útsýni frá húsi sínu.
Vopnasafn fannst í hótelherberginu og eins á heimili hans og virðist sem Paddock hafi verið svo mikill einfari að hvorki sambýliskonan né nágrannarnir urðu varir við það þegar hann kom með vopnin inn á heimilið. Honum tókst að koma 10 ferðatöskum og 23 byssum inn á 32. hæð hótelsins án þess að nokkur yrði þess var. Einfarinn varð að mesta fjöldamorðingja bandarískrar sögu.
Marilou Danley var á Filippseyjum þegar Paddock framdi árásina en kom til Los Angeles í gærmorgun. Í gærkvöldi las lögmaður hennar yfirlýsingu frá Danley þar sem hún tekur fram að hún hafi ekki haft grænan grun um áætlun Paddocks og að hún aðstoði lögreglu við rannsókn málsins.
Hún segir að Paddock hafi fundið fyrir hana ódýra flugmiða til þess að heimsækja fjölskylduna á Filippseyjum og síðan sendi hann henni peninga til þess að kaupa hús fyrir fjölskylduna. Hún hélt að með þessu væri hann að segja henni upp. 
Hús Paddock í Mesquite.
Hús Paddock í Mesquite. AFP
Einn nágranni þeirra segir að hann hafi vitað að Paddock væri fjárhættuspilari og segist hafa gert ráð fyrir því að hann svæfi á daginn. Hann segir að Danley hafi verið mjög indæl ólíkt Paddock.

Lögreglan í Las Vegas hélt blaðamannafund í nótt og þar kom fram að mikil leynd hafi hvílt yfir öllu hjá Stephen Paddock og lítið sé vitað um hann. Lögreglan telur að hann hafi ekki ætlað að fremja sjálfsvíg heldur hafi hann ætlað að reyna að flýja. Ekki hefur verið útskýrt frekar hvað lögreglan á við með því. Aðeins nokkrum klukkustundum áður en Paddock hóf skothríðina hafi hann verið í spilavítinu og stundað fjárhættuspil. Hann hafði leigt hótelíbúð í miðbæ Las Vegas viku áður er þar var haldin tónlistarhátíð úti við, líkt og var á hótelinu þar sem hann framdi árásina. 

„Við skilum þetta ekki enn,“ segir lögreglustjórinn í Las Vegas. Spurður um hvort Paddock hafi verið einn að verki segir hann ýmislegt benda til þess að á einhverjum tímapunkti hafi hann þurft á aðstoð að halda. En hver það er - ef það er einhver - veit lögreglan ekki.

Bandarísku forsetahjónin, Donald og Melania Trump, flugu til Las Vegas í gær og heimsóttu nokkur fórnarlamba Paddocks. Eins ræddu þau við starfsfólk sjúkrahússins sem tók á móti flestum þeirra sem særðust í árásinni. Trump segist vera stoltur af starfi þeirra. Þau séu hetjur Bandaríkjanna.

Marilou Danley.
Marilou Danley. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert