Hefðu yfirheyrt Heath vegna barnaníðsásakana ef hann væri á lífi

Edward Heath, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, lést árið …
Edward Heath, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, lést árið 2005. AFP

Lögregluyfirvöld á Bretlandseyjum segja að ásakanir gegn Edward Heath, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, er varða nauðgun og annað kynferðisofbeldi hefðu leitt til yfirheyrslna ef Heath væri enn á lífi.

Um er að ræða sjö mál en brotin eru sögð hafa átt sér stað á 31 árs tímabili. Eitt málanna snýr að nauðgun á 11 ára dreng árið 1961.

Ólafur Jóhannesson og Edward Heath fyrir framan Downingstræti 10 haustið …
Ólafur Jóhannesson og Edward Heath fyrir framan Downingstræti 10 haustið 1973 er þeir sömdu um lausn 50 mílna deilunnar. AP

Eitt brotanna er sagt hafa átt sér stað árið 1967, þegar Heath var leiðtogi Íhaldsflokksins og annað þegar hann var viðskiptaráðherra árið 1964. Ekkert brotanna ku hafa átt sér stað á meðan hann sat í embætti forsætisráðherra frá 1970 til 1974 en þrjú eftir þann tíma.

Í skýrslu sinni um málið ítreka lögregluyfirvöld að vitnisburður Heath hefði haft jafn mikið gildi og önnur gögn í málinu og að sú staðreynd að hann hefði verið yfirheyrður væri hann á lífi væri ekki til marks um að hann væri sekur.

Heath varð leiðtogi Íhaldsflokksins 1965 en var tilneyddur til að víkja fyrir Margaret Thatcher eftir ósigur í þingkosningunum 1974. Hann giftist aldrei og var nokkuð umtalaður vegna þess.

Ásakanirnar gegn Heath snúa m.a. að meintum brotum gegn fjórum drengjum á aldrinum 10 til 15 ára og tveimur mönnum. Rannsókn málsins hófst í ágúst 2015 en Heath lést 2005.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert