Þingmenn úr röðum repúblikana í Bandaríkjunum hafa óvænt lýst yfir áhuga á að banna búnað sem er settur á skotvopn til að þau skjóti hraðar.
Tilefnið er fjöldamorðið í Las Vegas þegar Stephen Paddock myrti 58 manns og særði tæplega fimm hundruð en hann notaði slíkan búnað er hann framdi ódæðið.
„Það er engin spurning að við þurfum að skoða þetta,“ sagði Paul Ryan, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild þingsins, í útvarpsviðtali.
Með því að þrýsta einu sinni á gikkinn geta hálfsjálfvirkir árásarrifflar með aðstoð búnaðarins skotið hundrað skotum á einni mínútu.
Demókratar í bæði fulltrúa- og öldungadeildinni hafa lagt fram frumvörp um að banna búnaðinn og sams konar tæki.
Diane Feinstein öldungadeildarþingmaður náði ekki frumvarpi sínu um bann við árásarrifflum í gegn árið 2013, fjórum mánuðum eftir skotárás í Newton þar sem 20 grunnskólabörn voru drepin. Hún vonast til að repúblikanar styðji þessar nýju tillögur.
„Eftir Las Vegas vona ég að þingmenn öldungadeildarinnar öðlist loksins það hugrekki sem þarf til að standa upp og segja, nú er nóg komið,“ sagði hún.