Mætir aftur fyrir rétti í mars

George Pell, fjármálastjóri Páfagarðs.
George Pell, fjármálastjóri Páfagarðs. AFP

George Pell, fjármálastjóri Vatíkansins, mun mæta aftur fyrir rétti í mars á næsta ári. Þá verður úrskurðað hvort næg sönnunargögn séu gegn honum til að dómsmál verði höfðað vegna ásakana um kynferðisofbeldi gagnvart börnum. Þetta kom fram í réttarsal í Melbourne í kvöld þar sem Pell var viðstaddur.

Svo gæti farið að allt að 50 vitni verði fengin til að gefa vitnisburð, að því er fram kom í réttarsalnum.

Þetta var í annað sinn sem Pell mætti í réttarsalinn.

Pell, sem er 76 ára, er hæst setti embættismaður kaþólsku kirkjunnar sem er sakaður um slíka glæpi. Hann er sagður hafa framið þá er hann starfaði sem prestur í Ástralíu á árum áður.

Kardínálinn George Pell hefur verið ákærður í Ástralíu.
Kardínálinn George Pell hefur verið ákærður í Ástralíu. AFP

Hann hefur neitað ásökununum harðlega. Lýsingar á meinta kynferðisofbeldinu hafa ekki verið birtar opinberlega. Eingöngu kemur fram að meint fórnarlömb hafi verið mörg.

Pell hefur ekki enn greint dómara frá afstöðu sinni til ásakananna en lögmaður hans sagði er hann mætti síðast í réttarsalinn í september að hann muni lýsa yfir sakleysi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert