Stephen Paddock, sem varð 58 manns að bana og særði hátt í fimm hundruð manns í skotárás í Las Vegas á sunnudag, sankaði að sér skotvopnum og skotfærum yfir áratuga tímabil að því er Reuters-fréttastofan greinir frá.
Enn er á huldu af hverju Paddock stóð fyrir árásinni og framdi sjálfsmorð að henni lokinni, en bandarísk yfirvöld telja árásina nú hafa verið þaulskipulagða.
„Við vitum að Stephen Paddock sankaði að sér skotvopnum og skotfærum yfir áratuga tímabil og að hann átti sér leynilega tilveru, sem við munum væntanlega aldrei skilja til fulls,“ sagði Joseph Lombardo, lögreglustjóri Clark-sýslu, á fundi með fréttamönnum í gærkvöldi.
Þá sagðist hann eiga erfitt með trúa að Paddock hafi verið einn um að koma saman vopnabúrinu og sprengiefninu sem lögregla fann í hótelherbergi hans á Mandalay Bay-hótelinu. „Maður verður að gera ráð fyrir að hann hafi notið aðstoðar á einhverjum tímapunkti,“ sagði hann.
Lombard sagði vísbendingar benda til þess að Paddock hafi reynt að flýja af vettvangi árásarinnar. Einnig er talið að hann hafi skoðað herbergi á Ogden-hótelinu í tengslum við Life is Beautiful-hátíðina sem haldin var í Las Vegas viku fyrr.
Lögregla fann tæplega 50 skotvopn á þremur stöðum þar sem húsleit var gerð. Tæpur helmingur vopnanna fannst á hótelherberginu og voru 12 rifflanna með búnaði sem gerði þá svo gott sem sjálfvirka.
Reuters hefur eftir Lombardo að lögregla sé nú að rannsaka möguleikann á að einhver atburður í lífi Paddocks hafi verið kveikjan að því að hann keypti rúmlega 30 skotvopn í október á síðasta ári.
Aaron Rouse, sem fer fyrir rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI á málinu, segir enn ekkert gefa nein „hryðjuverkatengsl“ til kynna.
Sambýliskona Paddocks, Marilou Danley, er nú við skýrslutökur hjá FBI, en hún kom til Bandaríkjanna í gær eftir að hafa verið þar í heimsókn hjá fjölskyldu sinni á Filippseyjum.
„Hann sagði aldrei neitt við mig eða gerði neitt sem ég gat túlkað sem viðvörun um að eitthvað hræðilegt á borð við þetta væri að fara að gerast,“ sagði í yfirlýsingu frá Danley.
Daney hefur verið yfirheyrð af FBI um vopnakaup Paddocks og 100.000 dollara sem hann sendi með bankagreiðslu til Filippseyja og sem virðist hafa verið ætlað henni.
Sagði hún Paddock hafa keypt fyrir sig flugmiða svo hún gæti heimsótt fjölskyldu sína og að hann hefði síðan sent henni peningana og sagt henni að leita að fasteign þar. Kvaðst hún í kjölfarið hafa haft áhyggjur af að hann ætlaði að slíta sambandi þeirra.
Bróðir hennar Eric sagði fjölmiðlum að peningasendingin væri sönnun þess að „Steve hefði hugsað um þá sem honum þótti vænt um“ og að hann hefði væntanlega viljað vernda Danley með því að senda hana úr landi fyrir árásina.