Nýjar vísbendingar í morðmálinu

Emilie Meng var sautján ára er hún hvarf sporlaust í …
Emilie Meng var sautján ára er hún hvarf sporlaust í júlí í fyrra. Lík hennar fannst á aðfangadag. Lögreglan óskar nú eftir upplýsingum um hvítan bíl sem sást nálægt staðnum þar sem hún sást síðast.

Á þriðja tug vísbendinga hafa borist í tengslum við morðið á Emilie Meng, 17 ára gamallar stúlku, sem síðast sást 10. júlí 2016. Meðal annars hafði kona samband við lögreglu þar sem hún telur sig jafnvel hafa séð manninn sem rændi og myrti Meng.

Lögreglan á Suður-Sjálandi og Lolland-Faster staðfestir þetta við Politiken í gær. „Við erum að fara yfir upplýsingar sem við höfum fengið, hvort þetta séu nýjar upplýsingar eða eitthvað sem við vissum áður og hvort þetta geti leitt rannsóknina áfram,“ segir Søren Ravn, aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Konan hafði samband við lögreglu eftir að birt var mynd af ljósleitri Hyundai i30 bifreið sem sást við lestarstöðina í bænum Korsør um svipað leyti og Emilie Meng hvarf. 

Vitni sá bifreið sem svipar til þeirrar lýsingar þann sama dag. Vitnið sagði lögreglu að morguninn 10. júlí í fyrra, nokkrum klukkustundum áður en vitað var um hvarf Meng, hafi hún (vitnið) ekið á eftir dráttarvél á Vestre Ringvej í bænum. Þar sem dráttarvélin ók mjög hægt þá varð hún að hægja verulega á sér og tók þess vegna eftir hvítri bifreið sem svarar til lýsingarinnar á Hyundai bifreiðarinnar. 

Lögreglan er að reyna að hafa upp á ökumanni dráttarvélarinnar til þess að kanna hvort hann hafi einnig tekið eftir bifreiðinni. 

Samkvæmt frétt Ekstra Bladet minntist konan á dráttarvélina við fjölskylduna fyrir löngu síðan en tengdi hana ekki á nokkurn hátt við morðið fyrr en nýverið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert