„Lykillinn er að reiðinni fylgi aðgerðir“

Sífellt fleiri hafa áttað sig á mikilvægi byssulöggjafar í Bandaríkjunum.
Sífellt fleiri hafa áttað sig á mikilvægi byssulöggjafar í Bandaríkjunum. AFP

Síðan hinn sex ára gamli Dylan Hockley var skotinn til bana ásamt 19 öðrum börnum og sex fullorðnum þegar byssumaður réðst inn í grunnskóla í Connecticut í desember árið 2012 hefur móðir hans verið óþreytandi í baráttu sinni gegn byssuofbeldi. Í viðtali við fréttastofu AFP segist Nicole Hockley hafa upplifað mikla reiði og sorg þegar henni bárust fréttir af fjöldamorðinu í Las Vegas í síðustu viku.

Slökkviliðsmaður við minnisvarðann við Sandy Hook grunnskólann í desember 2012.
Slökkviliðsmaður við minnisvarðann við Sandy Hook grunnskólann í desember 2012.

 Í kjölfar árásarinnar í grunnskóla sonar hennar stofnaði hún ásamt fleirum samtök sem heita Sandy Hook Promise, eftir grunnskólanum sem atvikið átti sér stað í. Vitandi hversu gríðarlegar hindranir koma í veg fyrir að hægt sé að koma á almennilegri byssulöggjöf í landinu einbeita samtökin sér að forvörnum, þá sérstaklega geðrænum vandamálum og að koma auga á viðvörunarmerki sem geta bent til ofbeldis.

Hver skotárás hefur þau áhrif að fleiri vilja herða byssulöggjöf

Í Bandaríkjunum er að meðaltali gerð ein skotárás á dag og 33.000 manns látast af völdum skotvopna á ári hverju. Hockley er staðföst í baráttu sinni gegn sinnuleysinu og uppgjöfinni sem einkennir marga Bandaríkjamenn í baráttunni gegn skotvopnum. Hún segir byssuofbeldi vera að aukast en að móthreyfingin sé líka á uppleið. Í hvert sinn sem ný skotárás sé gerð hafi það áhrif á að fleira fólk vilji herða byssulöggjöf í landinu.

„Lykillinn er að reiðinni fylgi aðgerðir,“ segir Hockley. Hún segir jafnframt að hún upplifi að mörgum finnist að ef skotárásin í Sandy Hook grunnskólanum hafi ekki breytt neinu, þá muni aldrei neitt breytast. Hún segir þó margt hafa breyst síðan þá, þó breytingarnar gerist vissulega of hægt.

Stephen Craig Paddock hafði sankað að sér skotvopnum í langan …
Stephen Craig Paddock hafði sankað að sér skotvopnum í langan tíma áður en hann lét til skarar skríða frá hótelherbergi í Las Vegas og myrti 58 manns. AFP

 Hún segir mikilvægast að fólk læri að þekkja merki þess að einhver sé í þann mund að grípa til ofbeldis. Í tilfelli árásarmannsins í Las Vegas segir hún að auðveldlega hafi átt að vera hægt að grípa ínn í, þar sem hann hafði byrjað að sanka að sér vopnum með skipulögðum hætti fyrir rúmu ári síðan.

Þurfa að einblína á manneskjuna sem heldur á skotvopninu

Repúblikanar hafa lengi verið á móti löggjöf á skotvopn í landinu, en í kjölfar árásarinnar í Las Vegas þar sem notast var við búnað sem gerði riffilinn nánast sjálfvirkan íhuga þeir að setja bann á slíkan búnað, sem kallast „bump stocks“.

Hockley segir hvert skref fram á við mikilvægt, en að banna búnaðinn sé aðeins lítið skref gegn gríðarstóru vandamáli. „Við þurfum að hugsa stærra og hætta að einblína á skotvopnið og byrja að einblína á manneskjunni sem á því heldur til að koma í veg fyrir að hún skaði sjálfa sig eða aðra.“

Hér má sjá búnað svipaðan þeim sem Paddock notaði til …
Hér má sjá búnað svipaðan þeim sem Paddock notaði til að geta skotið hraðar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert