Fjöldamorðinginn í Las Vegas, Stephen Paddock, var spilafíkill og tók kvíðastillandi lyf, valíum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í úttekt CNN á manninum sem skaut 58 til bana og særði yfir 500 fyrir rúmri viku.
Enn hefur ekki tekist að finna út hvað lá að baki ákvörðun Paddock, sem var 64 ára að aldri, um að skjóta fólk af handahófi úr hótelherbergi sínu 1. október. Hann framdi síðan sjálfsvíg á hótelberginu þaðan sem árásin var gerð.
CNN byggir umfjöllun sína meðal annars á málsskjölum frá árinu 2013 þar sem Paddock sagði sjálfur að hann væri helsti pókerspilari heims í pókervélum.
Paddock höfðaði mál gegn Cosmopolitan-hótelinu árið 2013 en hann hafði hrasað og dottið á göngustíg hótelsins árið 2011.
„Enginn spilar jafn mikið og jafn lengi og ég,“ segir Paddock í málsskjölunum sem alls eru 96 blaðsíður að lengd. Árið 2006 hafi hann að meðaltali spilað leiki 14 tíma á sólarhring alla daga ársins.
„Ég spilaði fjárhættuspil allar nætur,“ sagði hann og bætti við; „ég svaf á daginn.“
Samkvæmt frétt CNN virtist vitnisburður Paddock á þessum tíma vera hrokafullur og kaldhæðinn. Þegar hann spilaði fjárhættuspil drakk hann nánast aldrei áfengi því það sem var í húfi í spilamennskunni var á því stigi að hann sagðist þurfa á öllu sínu viti að halda.
Lögreglustjórinn í Las Vegas, Joseph Lombardo, sagði við fréttamenn í gær að öryggisvörðurinn sem Paddock særði var skotinn sex mínútum áður en Paddock hóf skothríðina á tónleikagestina.
Áður hafði öryggisvörðurinn, Jesus Campos, verið hylltur sem hetja og sagður hafa stöðvað árásina á tónleikagestina með því að dreifa athygli Paddock frá mannfjöldanum á herbergisgang hótelsins. Þessar nýju upplýsingar vekja spurningar um hvers vegna lögreglu tókst ekki að staðsetja Paddock fyrr en raun ber vitni og um leið stöðva árásina.
Paddock, sem ekki virðist hafa haft nokkur tengsl við stjórnmálasamtök, trúar- eða haturshópa, átti eignir víða. Í málsskjölunum frá 2013 kemur fram að í hvert skipti sem hann spilaði fjárhættuspil hafi hann unnið frá 100-1.350 Bandaríkjadali. Stundum milljónir Bandaríkjdala á kvöldi. En Paddock taldi það ekki háar fjárhæðir.
Að sögn Paddock fór hann á milli nokkurra ríkja, Kaliforníu, Nevada, Texas og Flórída og bjó oftar en ekki á hótelum við hlið spilavíta. Þar ráfaði hann um í sandölum og Nike-íþróttabuxum og spilaði.
Þrátt fyrir að vera sterkefnaður tók hann yfirleitt drykkjarföng með sér inn í spilavítin því honum fannst óþarfi að gefa þjónustufólki of mikið þjórfé.
Við réttarhöldin lýsti Paddock því yfir að hann glímdi ekki við andleg veikindi, enga fíkn og væri ekki á sakaskrá. Læknir, sem hann sagðist hafa góðan aðgang að, hefði hins vegar skrifað upp á lyfseðil fyrir valíum fyrir hann sem hann tæki við kvíða.
Þarna kemur einnig fram að hann hafi alist upp í Kaliforníu, farið í menntaskóla í Sun Valley í Los Angeles og Cal State Northridge háskólann. Hann vann um tíma hjá skattinum en hóf síðan að fjárfesta í fasteignum, samkvæmt frétt CNN.
Ekkert er minnst á skotvopn í málsskjölunum nema að Paddock staðfestir að hann sé með byssuleyfi í Texas. Paddock tapaði málinu gegn Cosmopolitan-hótelinu.