„Vítaverð mistök voru gerð“

AFP

Rannsókn á hryðjuverkaárásinni á jólamarkaði í miðborg Berlínar í desember fyrra hefur leitt í ljós að fjöldi vítaverðra mistaka af hálfu lögreglu og annarra öryggisaðila, hafi orðið til þess að árásamaðurinn fékk svigrúm til að skipuleggja og framkvæma hryðjuverkið.

Þetta eru niðurstöður 72 blaðsíðna skýrslu, sem Bruno Jost, fyrrverandi saksóknari, kynnti í dag. „Vítaverð mistök voru gerð, sem hefðu aldrei átt að eiga sér stað,“ sagði Jost þegar hann kynnti skýrsluna.

Árásarmaðurinn Ani Amri, hælisleitandi frá Túnis, ók flutningabíl inn á jólamarkaðinn í Berlín, þann 19. desember síðastliðinn, með þeim afleiðingum að 12 létust og næstum 100 særðust. Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar fékk lögregla fjölmörg tækifæri til að handaka Amri fyrir nokkur mismunandi brot.

Hinn 24 ára Amri, sem sat um tíma í fangelsi á Ítalíu, hafði verið í samskiptum við róttæka íslamista og seldi eiturlyf í Berlín. Honum hafði tekist að sleppa undan sérstöku eftirliti með því að nota fölsuð skilríki.

AFP

Lögreglan í Berlín hafði fengið ábendingu um að Amri væri hugsanlega öfga íslamisti og var með hann undir eftirliti á virkum dögum, en ekki um helgar eða á almennum frídögum. Eftirlitið varði þó aðeins í nokkrar vikur, enda taldi lögreglan Amri stunda sölu á eiturlyfjum í litlu magni,

Lögreglan hefði getað handtekið hann og ákært fyrir vörslu og sölu fíkniefna nokkrum sinnum, en vegna mistaka í boðskiptakerfi á milli lögreglu og saksóknara var það aldrei gert.

Jost segir lögreglu svo hafa reynt eiga við upptökur í kerfum hjá sér eftir árásina, til að hylma yfir annamarkana í þeirra starfi. Afhjúpun sem ein og sér gæti verið tilefni til lögreglurannsóknar.

Sex mánuðum fyrir árásina í Berlín var Amri handtekinn í Friedrichshafen með tvö fölsuð ítölsk vega vegabréf. Lögregla hélt honum þó aðeins í tvo daga, þrátt fyrir að hafa heimild til að halda honum í þrjá til fjóra mánuði. Þá hefði hugsanlega verið hægt að vísa honum úr landi og senda aftur til Túnis.

Í staðinn rændi hann flutningabíl og myrti pólskan bílstjóra áður en hann ók bílnum á fullri ferð inn í mannhafið á markaðnum. Hann komst undan, en var nokkrum dögum síðar skotinn til bana af ítölsku lögreglunni í Mílanó.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert