Þöggun blaðamanna fer með frelsið

AFP

Sonur maltnesku blaðakonunnar Daphne Caruana Galizia segir að hún hafi verið ráðin af dögum vegna skrifa sinna. Hann lýsir því á Facebook hvernig hann hafi hlaupið í örvæntingu í kringum bíl móður sinnar þar sem hann stóð í ljósum logum í gær. Hann reyndi að opna hurð bílsins en það var orðið of seint.  

Bifreið Caruna Galizia var sprengd upp skammt frá heimili blaðakonunnar á Möltu í gær en hún hefur meðal annars unnið ítarlegar fréttir um spillingarmál tengdum forsætisráðherra landsins, Joseph Muscat, og nánum samstarfsmönnum hans og fjölskyldu.

Sonur hennar, Matthew Caruana Galizia, sem einnig er blaðamaður og kom meðal annars að rannsókn á Panamaskjölunum, segir Muscat vera samsekan um morðið á móður hans.

Varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Frans Timmermans, skrifar á Twitter að hann sé bæði reiður og í áfalli. „Ef þaggað er niður í blaðamönnum glötum við frelsinu.“

Talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Margaritis Schinas, segir að réttlætinu verði að fullnægja og rannsaka þurfi hverjir hafi staðið á bak við morðið á blaðamanni sem rannsakaði spillingu sem stjórnmálamenn á Möltu blandist inn í. 

Daphne Capuana Galizia.
Daphne Capuana Galizia. AFP

„Við erum skelfingu lostin vegna þeirrar staðreyndar að vel þekktur og virtur blaðamaður á Möltu, Daphne Caruana Galizia, hafi týnt lífi í gær, að því er virðist, skipulagðri árás,“ segir  Schinas.

Vinkonur í þrjá áratugi

Fjölmiðlakonan Linda Blöndal hefur þekkt Daphne áratugum saman og átt í miklum og góðum samskiptum við hana. Daphne var meðal annars viðmælandi hennar í þætti sem Linda vann fyrir RÚV um Möltu fyrir fimmtán árum síðan.

„Þetta er pólitískt morð. Henni hafði verið hótað margoft. Daphne var óttalaus, glæsileg og ruggaði bátum svo um munaði með pistlum sínum. Oft reynt að handtaka hana fyrir hvað eina. Hetjukona og alltaf til taks í samræður þegar við hittumst. Ég er satt að segja í sjokki og veit ekki hvað skal segja þegar þaggað er niður í konu eins og Daphne,“ skrifar Linda á Facebook.

Dóra Mizzi, systir Lindu Blöndal hefur búið á Möltu í þrjá áratugi og þær Daphne hafa verið vinkonur allan þann tíma. 

Þær voru nágrannar fyrst þegar Dóra flutti til eyjunnar og er mikil og góð vinátta milli fjölskyldu Dóru og Daphne allt frá þeim tíma. Daphne Caruana Galizia lætur eftir sig eiginmann og þrjá syni.

Daphne er dáin. Hún var myrt

Sonur Dóru heyrði sprenginguna síðdegis í gær og sá svartan reyk en gerði sér ekki grein fyrir því hvað væri að gerast en fjölskyldurnar búa skammt frá hvor annarri í sama dal. Það var ekki fyrr en eiginmaður Dóru kom heim úr vinnunni og sér fréttina um sprengjutilræðið í tölvunni að Dóra fréttir af því hvað hafi gerst. 

„Daphne er dáin. Hún var myrt, sagði hann. Ég fékk svo mikið áfall vegna þess að ég hef þekkt hana allt frá því ég kom hingað til Möltu fyrst,“ segir Dóra í samtali við mbl.is.

Hún segir að skrif Daphne hafi alla tíð vakið mikla athygli enda feykigóður og sterkur penni. „Hún gat verið grimm en hún sagði sína skoðun,“ segir Dóra. „Hún fékk fólk til þess að segja frá,“ bætir Dóra við en blogg Daphne var gríðarlega vinsælt og víðlesið.

Við vorum vinir og hún var allt öðruvísi sem manneskja. Þegar hún var í sínu eðlilega umhverfi og var ekki að berjast gegn öllu því sem hún taldi rangt í landinu, var hún ofboðslega róleg og blíð kona, segir Dóra.

„Hún var svo stór hluti af samfélaginu en það voru margir sem hötuðu hana. Því hún réðst kannski gegn þeirra flokki og var mjög hörð í gagnrýni sinni á Verkamannaflokkinn,“ segir Dóra.

Undanfarið hafði Daphne unnið að í málum gegn Adrian Delia, formanni Þjóðernisflokksins, en hann hefur nú fallið frá öllum meiðyrðamálum gegn Daphne sem hann höfðaði í ágúst.

„Hún lét alla heyra það en var alltaf meira á móti Verkamannaflokknum,“ segir Dóra. Það skýrist að sögn Dóru á því að Daphne er að alast upp þegar Verkamannaflokkurinn var að missa tökin í kringum 1980 og spillingin var alls ráðandi. „Hún treysti þeim aldrei,“ bætir Dóra við.

AFP

Í færslu á Facebook sakar Matthew Caruana Galizia forsætsisráðherrann um að hafa fyllt ráðuneytið af þrjótum og skapað menningu skaðleysis sem hafi breytt Möltu í mafíueyju.

Blaðamaðurinn sem stendur í fæturna er fyrsta skotmarkið

„Móðir mín var ráðin af dögum vegna þess að hún var, líkt og margir sterkir blaðamenn, tengingin milli löggjafans og þeirra sem reyna að brjóta lög, skrifar Matthew Caruana Galizia á Facebook. 

„En um leið var hún skotmark vegna þess að hún var eina manneskjan í þessari stöðu. Þetta er það sem gerist þegar stofnanir ríkisins eru óstarfhæfar: manneskjan sem stendur í fæturna er blaðamaður. Sem þýðir að hún er sú fyrsta sem deyr.“

Daphne Caruana Galizia var 53 ára gömul þegar hún lést en hún var rannsóknarblaðamaðurinn sem leiddi rannsóknina á Panamaskjölunum á Möltu ásamt syni sínum. 

Henni hefur verið lýst sem „Wikileaks-konan“ þar sem hún skrifaði fjölda greina þar sem hún bar nána samstarfsmenn Muscat þungum sökum, meðal annars byggða á gögnum úr Panama skjölunum. 

AFP

Mikil reiði og sorg ríkir meðal eyjaskeggja og í gærkvöldi kveiktu þúsundir á kertum í minningu hennar í höfuðborginni, Valletta, og nágrenni. Búist er við því að mun fleiri muni taka þátt í minningarathöfn um helgina. Nokkur hundruð tóku þátt í mótmælum undir kjörorðinu „Réttlæti fyrir Daphne“ fyrr í dag.

Hún er fjórða manneskjan sem deyr í sprengjutilræðum á Möltu á rúmu ári en fyrri árásir hafa tengdst skipulagðri glæpastarfsemi.

„Þeir störðu á mig“

„Ég mun aldrei gleyma, að hlaupa í kringum loga helvítis á vettvangi, reyna að opna hurðina á sama tíma og gjall bílflautunnar glumdi enn. Öskrandi á tvo lögreglumenn sem komu upp með eitt slökkvitæki til þess að slökkva,“ skrifar Matthew Caruana.

„Þeir störðu á mig. Mér þykir það leitt en það er ekkert sem við getum gert,“ sagði annar þeirra. Ég leit niður og þarna voru líkamshlutar móður minnar allt í kringum mig. Ég áttaði mig á því að þeir höfðu rétt fyrir sér. Þetta var vonlaust.“

Á sama tíma lýsir Muscat morðinu sem villimennsku og heitir því að draga ódæðismennina fyrir dóm. En sonur fórnarlambsins gefur lítið fyrir orð forsætisráðherrans um heiðarlega rannsókn, sem hann segir eins og áður sagði samsekan. 

Matthew Caruana Galizia og Caruana Galizia, sonur og eiginmaður Daphne …
Matthew Caruana Galizia og Caruana Galizia, sonur og eiginmaður Daphne Caruana Galizia, ásamt lögreglu á vettvangi. AFP

Rannsóknardómarinn, sem átti að stýra rannsókninni, hefur þegar stigið til hliðar vegna ásakana Caruana Galizia fjölskyldunnar um náin tengsl dómarans við ríkisstjórn Verkamannaflokksins. Dómarinn, Consuelo Scerri Herrera, hafði verið sakaður um misferli í starfi af bloggaranum og hafði hótað henni málsókn fyrir ærumeiðingar.

Aðeins eru fjórir mánuðir liðnir síðan flokkur Muscat vann stór sigur í þingkosningum en hann hafði flýtt kosningum vegna frétta Daphne þar sem hún sakaði eiginkonu Muscat, Michelle, um að hafa þegið fé frá fjölskyldu Ilham Aliyev, forseta Aserbaísjan, og falið á leynireikningum í Panama.

Muscat harðneitaði ásökunum en fjölmörg mál tengd honum og nánustu samstarfsmönnum hans er að finna í skjölunum sem var lekið frá Mossack Fonseca lögmannsstofunni. Í skjölunum er upplýst um hvernig auðugir einstaklingar víðsvegar um heiminn, þar á meðal margir stjórnmálamenn, notuðu skúffufyrirtæki í skattaskjólum, svo sem Panama, til að fela sjóði sína.

Meðal þeirra sem komst upp um eru tveir nánir samstarfsmenn Muscats. Hann barðist gegn kröfu almennings um að þeir yrðu reknir frá störfum og bar fyrir sig að um einkareikninga þeirra væri að ræða og þeir hefðu ekki framið lögbrot. 

AFP

Í frétt sjónvarpsstöðvar á Möltu kemur fram að Caruana Galizia hafi lagt fram kæru til lögreglu fyrr í mánuðinum vegna hótana sem henni höfðu borist.

„Égt mun ekki una mér hvíldar fyrr en réttlætið nær fram að ganga,“ sagði Muscat forsætisráðherra í gærkvöldi og bætti við að allir viti að Caruana Galizia hafi verið óvægin í gagnrýni sinni gagnvart honum, bæði pólitískt og persónulega, en enginn geti réttlæt svo villimannslegan verknað á nokkurn hátt,“ bætti hann við. Hann segist hafa óskað eftir því við bandarísku alríkislögregluna, FBI, að hún komi að rannsókn málsins. FBI hefur orðið við beiðninni og mun koma til Möltu að rannsaka morðið. Dóra fagnar því enda myndi aldrei nokkur leggja trúnað á verk yfirvalda á Möltu í þessu máli.

Síðasta færsla pennans beitta

Í síðustu færslunni á bloggi hennar, sem var skrifuð innan við klukkustund áður en hún lést, endurtók hún ásakanir sínar um að  ráðuneytisstjóri (chief of staff) forsætisráðuneytisins, Keith Schembri, væri bófi sem notfærði sér áhrif sem hann hefði innan ríkisstjórnarinnar til þess að auðgast sjálfur.

„Það eru bófar hvar sem þú lítur. Staðan er vonlaus.“ Með þessum orðum lýkur færslunni. Þeirri síðustu sem þessi beitti penni lætur eftir sig.

Muscat, sem er 43 ára gamall, var áður blaðamaður. Árið 2013 komst hann til valda er flokkur hans, Verkamannaflokkurinn, batt enda á 15 ára stjórnartíð hægri flokksins, Þjóðernisflokksins. Á fyrsta kjörtímabilinu náði hann fram ýmsum efnahagsumbótum á Möltu og bætti lagalega stöðu samkynhneigðra. Er talið að þetta hafi ýtt undir stórsigur hans í júní. Dóra tekur undir það og segir að atvinnuástandið hafi sjaldan eða aldrei verið jafn gott og nú á Möltu og margir velti ekki fyrir sér Panama-skjölunum og telji að þau komi sér ekki við. „Það er vinna og góð laun og fólk hefur hvorki áhuga né áhuga á að fjallað sé um þetta. Vildi bara að hún léti þá vera. En hún gat það ekki. Hún var óstöðvandi í sínum rannsóknum,“ segir Dóra. 

Hluti af ásökunum í  garð Muscat beinast að orðrómi um að auðmenn geti fengið maltneskt ríkisfang gegn fjárfestingum á eyjunni. Jafnframt hafa önnur ríki Evrópusambandsins ýjað að því að fjármálakerfi Möltu bjóði upp á skattaundanskot. Til að mynda eru þýsk skattayfirvöld að rannsaka 2 þúsund fyrirtæki sem eru skráð á Möltu en tengjast þýskum hlutafélögum.

Á sama tíma og skotmörk Caruana Galizia hafi aðallega verið félagar í Verkamannaflokknum þá hefur hún undanfarið beint sjónum sínum að stjórnarandstöðunni, Þjóðernisflokknum. Formaður flokksins, Adrian Delia, segir að tilræðið í gær hafi verið pólitískt morð og hvatti til þess að sjálfstæð rannsókn færi fram.

Delia segir að flokkurinn muni ekki sætta sig við að lögreglustjórinn, herforinginn eða rannsóknardómarinn komi að rannsókninni því allir þrír hafi verið harðlega gagnrýndir af Caruana Galizia. 

Caruana Galizia beindi ekki bara sjónum sínum að spilltum stjórnmálamönnum heldur einnig meintu peningaþvætti bankanna og tengsla milli veðmálaiðnaðarins og mafíunnar.

AFP

Evrópskir stjórnmálamenn hafa tjáð sig um morðið á samfélagsmiðlum undanfarið. Meðal annars þýski stjórnmálamaðurinn Manfred Weber, sem situr á Evrópuþinginu fyrir kristilega demókrata. „Svartur dagur fyrir lýðræðið,“ skrifar hann á Twitter. 

En Matthew Caruana Galizia segir að morðið á móður hans sé ekki venjulegt morð og ekki harmrænt. „Hörmung er þegar ekið er yfir einhvern. Þegar blóð og eldur umkringja þig þá er það stríð. Við erum fólk sem á í stríði við ríkið og skipulagða glæpastarfsemi sem hefur orðið óaðskiljanleg.“

Hann gagnrýnir „trúðinn sem siti í stól forsætisráðherra“, sem gefi yfirlýsingar til þingsins um blaðamann sem hann hafi eytt yfir áratug í að gagnrýna og áreita. Matthew Caruana Galizia bendir meðal annars á færslu aðstoðarvarðstjóra í lögreglunni sem ritaði á Facebook skömmu eftir morðið: „Allir fá það sem þeir verðskulda, kúamykja! Er ánægður :)“

„Já þetta er það sem við erum; mafíuríki þar sem þú ert sprengdur í tætlur fyrir að beita þér fyrir grundvallarfrelsi. Aðeins fyrir þá sem áttu að vera að verja þig í stað þess að fagna því.“

„Ég er miður mín yfir þessu enda vinkona mín og fjölskyldu minnar,“ segir Dóra sem minnist góðrar vinkonu. 

„Ég þekkti hana sem góða þægilega konu sem trúði á það sem hún var að gera. Hún gat bara ekki hætt og hefur verið lengi hrædd um líf sitt. Samviska hennar hefði aldrei leyft henni að hætta og hún borgaði fyrir það með lífi sínu,“ segir Dóra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka