5 Bandaríkjaforsetar deila tónleikasviði

Forsetarnir fimm voru allir saman á sviðinu er þjóðsöngurinn var …
Forsetarnir fimm voru allir saman á sviðinu er þjóðsöngurinn var leikinn. Skjáskot/Twitter

Fimm fyrrverandi Bandaríkjaforsetar komu saman á tónleikum til styrktar fórnarlömbum fellibyljanna sem gengið hafa yfir Bandaríkin á þessu ári.

Þeir Barack Obama, George W. Bush, Bill Clinton, George HW Bush og Jimmy Carter komu fram saman í Texas í gær að því er BBC greinir frá.

Demókrataforsetarnir þrír og repúblikanaforsetarnir tveir komu þar saman til að biðla til fólks að aðstoða þá sem nú eiga um sárt að binda í kjölfar eyðileggingarinnar sem fylgdi fellibyljunum Harvey, Irmu og Maríu. Þeim hefur tekist að safna 31 milljón dollara til þessa.

Forsetarnir hófu ákall sitt One America Appeal eftir að Harvey gekk á land í Texas og olli tjóni sem er metið á milljarða dollara. Eftir það fylgdu hins vegar fellibylirnir Irma og María í kjölfarið og var ákallið þá víkkað út og látið ná einnig til samfélaga á Flórída, Púertó Ríkó og Bandarísku Jómfrúaeyjum.

„Sem fyrrverandi forsetar viljum við hjálpa landsmönnum að rétta úr kútnum,“ sagði Obama í skilaboðum sem voru birt áður en tónleikarnir hófust. George W. Bush forveri hans í embætti bætti svo við: „Fólk á um sárt að binda hér, en eins og einn Texasbúi orðaði það, þá eigum við meiri ást í Texas en vatn.“

Allir forsetarnir fimm komu saman á sviðinu er þjóðsöngurinn var leikinn, áður en þeir settust til að fylgjast með tónleikunum. Meðal þeirra sem þar komu fram voru Lee Greenwood og Lady Gaga.

Núverandi forseti, Donald Trump, var ekki á staðnum en sendi skilaboð þar sem hann lofaði „frábæra“ vinnu þeirra og lýsti yfir „innilegu þakklæti“.

Bæði Obama og Bush hafa flutt ræður undanfarna viku sem taldar hafa verið lítt dulin gagnrýni á störf Trumps í Hvíta húsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert