Mafían jafnvel á bak við morðið

AFP

Mögulega eru tengsl milli morðsins á maltneska rannsóknarblaðamanninum Daphne Caruana Galizia og rannsóknar ítalskra yfirvalda á ólöglegu smygli á eldsneyti, segir saksóknari á Ítalíu. 

Carmelo Zuccaro, yfirsaksóknari á Sikiley, sem leiðir rannsóknina á eldsneytissmyglinu, segir í viðtali við Guardian að ekki sé hægt að útiloka þann möguleika. Að einhverjir þeirra manna sem væru til rannsóknar, en rannsóknin nær til Líbýu, Möltu og Ítalíu og er talin tengjast skipulagðri glæpastarfsemi á Sikiley, gætu staðið á bak við morðið á Caruana Galizia. Líkt og fram hefur komið á mbl.is lést hún þegar bíll hennar var sprengdur í loft upp í síðustu viku.

AFP

Zuccaro segir að Caruana Galizia hafi unnið að greinum um eldsneytissmyglið milli Líbýu og Möltu hér áður. Þar hafi nokkrir þeirra sem koma fyrir í rannsókn hans verið nafngreindir.

Rannsóknin á eldsneytissmyglinu, en um marga tuga milljóna evra (um fjögurra milljarða króna) viðskipti er að ræða, hefur staðið yfir í nokkra mánuði. Daginn eftir morðið á Caruana Galizia handtók ítalska lögreglan nokkra einstaklinga sem tengjast smyglinu en enginn þeirra hefur verið formlega sakaður um aðild að morðinu.

Maltverjinn Darren Debono var handtekinn á ítölsku eyjunni Lampedusa á föstudag og ákærður fyrir aðild að smyglinu sem talið er tengjast herforingjum í her Líbýu. Eldsneyti fyrir tugi milljóna evra hefur verið smyglað frá Líbýu inn á evrópska markaði.

Debono hefur ekki verið sakaður um aðild að morðinu en ekki liggur ljóst fyrir hversu lengi hann hafði dvalið á Lampedusa áður en hann var handtekinn né heldur hvernig hann kom þangað.

AFP

Lögreglan á Möltu segist vera að rannsaka alla mögulega þræði tengda morðinu á blaðakonunni og hefur verið í sambandi við ítölsku lögregluna frá því Debono var handtekinn.

Debono, sem er fyrrverandi knattspyrnumaður, er meðal þeirra sem varð fyrir barðinu á Caruana Galizia og rannsóknum hennar. Í grein sem hún birti á bloggi sínu í febrúar 2016 kom fram að Debono, sem ætti veitingastað og útgerð, væri í miklum viðskiptum við Líbýu.

Hún sagðist hafa fengið hótanir í tölvupósti frá ættingja Debono sem átti að vera ósáttur við umfjöllun hennar um starfsemi fjölskyldunnar. Caruana Galizia skrifaði á blogg sitt að Debono ætti á hættu að vera sprengdur upp eftir að tveir aðrir útgerðarmenn, sem ættu í viðskiptum í Líbýu, voru sprengdir upp í bifreiðum sínum.

Tilraunir ítalska saksóknarans til að fá maltensk yfirvöld til samstarfs hafa ekki borið ávöxt, samkvæmt frétt Guardian. Alþjóðlegri beiðni um upplýsingar frá lögreglunni á Möltu hefur ekki enn verið svarað en beiðnin var send fyrir einu og hálfu ári. Zuccaro segir að Malta sé griðland fyrir mafíósa af öllu tagi.

AFP

Samkvæmt gögnum málsins var eldsneytinu smyglað frá olíuhreinsunarstöð í Zawyia í Líbýu með viðkomu á Möltu en þaðan var eldsneytið flutt til Ítalíu, Spánar og Frakklands.

Fahmi Bin Khalifa, sem er búsettur á Möltu, var handtekinn í Trípólí í ágúst og er talið hann sé höfuðpaurinn í glæpahringnum. Saksóknari segir að Bin Khalifa hafi verið fangelsaður í Líbýu í valdatíð Gaddafí en hafi verið látinn laus við dauða einræðisherrans.

Saksóknaraembættið á Sikiley telur að hann hafi orðið leiðtogi hernaðarsamtaka sem eru með tengsl inn í olíufélag líbýska ríkisins og hafi smyglað vopnum og fólki milli landa. Auk olíusmyglsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka