Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur birt teikningar af tveimur konum sem eru grunaðar um að hafa numið skokkara á brott í Kaliforníu í nóvember í fyrra.
Sherri Papini, 34 ára, hafði verið saknað í þrjár vikur þegar hún fannst í vegkanti í um tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá heimili sínu. Papini sagði lögreglu að hún hafi verið skilin eftir í vegkantinum af ungri konu af rómönskum uppruna. Sú hafi verið ein þeirra sem héldu henni fanginni. Í frétt BBC er ekki nánar farið ofan í það hvers vegna hún geti ekki veitt frekari upplýsingar um fólkið sem rændi henni og hélt henni fanginni.
Í frétt á BBC kemur fram að þeir sem geti veitt upplýsingar um mannránið fái greidda 10 þúsund Bandaríkjadali, rúma milljón króna. Að sögn lögreglu er talið að þær sem rændu henni séu af rómönskum uppruna.
Ekki er vitað hvers vegna Papini var rænt skammt frá heimili sínu í Redding í Norður-Kalforníu. Eiginmaður hennar, Keith, tilkynnti hvarf hennar 2. nóvember eftir að hún hafði ekki sótt börn þeirra í leikskólann. Hann fann farsíma hennar í 1,6 km fjarlægð frá heimili þeirra. Á þakkargjörðarhátíðinni, þremur vikum síðar, fannst hún í Yolo-sýslu sem er í rúmlega 220 km fjarlægð frá heimili hennar. Hún var mjög lerkuð og með töluverða áverka. Eins var hún bundin á höndum og fótum.
Að sögn lögreglu hafði sítt ljóst hár hennar verið klippt af. Lögreglustjórinn í Shasta-sýslu, Tom Bosenko, segir að árásarmaðurinn sé greinilega verulega sjúkur og hafi viljað niðurlægja Papini.
Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu lögreglustjóra fundust lífsýni úr karlmanni á fatnaði Sherri Papini og eins fannst lífsýni úr konu á líkama hennar. Ekki hafa verið borin kennsl á lífsýnin. Karlmaður frá Micigan hafði verið að senda henni skilaboð dagana áður en hún hvarf og hafði ætlað að hitta hana þegar hann væri í Kaliforníu. Lögregla yfirheyrði manninn og segir ljóst að hann tengist því ekki á nokkurn hátt.
Eiginmaðurinn, Keith, er heldur ekki talinn eiga hlut að máli en hann fór í lygamæli til þess að taka af öll tvímæli þar um.